Undanfarin ár hafa verið gerðar miklar og góðar endurbætur á fjölmörgum húsum á Siglufirði.
Þó eru ennþá nokkur dæmi um hús sem ekki hafa verið endurbætt mjög lengi, og er enn og aftur hægt að finna bókanir þar að lútandi í fundargerðum Fjallabyggðar.
Elsta dæmið sem Trölli.is fann í fundargerðunum, og enn er óleyst, varðar Hólaveg 12. Í fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 2010 er þetta:
3. 1009088 – Ástand húseignar Siglufirði
Theodór Ottósson eigandi húseignar að Hólavegi 11, Siglufirði vill vekja athygli á útliti og ástandi hússins að Hólavegi 12 og kanna hvort Skipulags- og umhverfisnefnd hafi uppi áform um aðgerðir til úrbóta á fasteigninni.
Nefndin felur tæknideild að hefja aðgerðir til úrbóta á þessari húseign sem og öðrum sem svipað er ástatt fyrir.
Í fundargerð sömu nefndar frá 7. nóvember 2018 má finna:
5. 1810090 – Krafa um úrbætur húss við Aðalgötu 6 á Siglufirði
Umræða tekin um málefni Aðalgötu 6 sem hefur um árabil verið í óviðunandi ástandi. Lagðar fram ljósmyndir af ástandi hússins ásamt bréfum til fyrrverandi og núverandi eigenda með áskorun um úrbætur.
Tæknideild falið að senda húseiganda bréf þar sem gefinn er frestur til að skila inn tímasettri framkvæmdaáætlun, að öðrum kosti verði gripið til þess að leggja á dagsektir til að knýja fram úrbætur.
6. 1810091 – Krafa um úrbætur húss við Hvanneyrarbraut 32, Siglufirði
Lagt fram erindi Björgvins Árnasonar dags. 5.10.2018. Farið er fram á að nýtt verði þau ákvæði sem byggingarfulltrúi hefur í settum lögum og reglugerðum til að skylda eiganda/umráðamann Hvanneyrarbrautar 32 að sinna sínum skyldum hvað varðar viðhald áðurnefndar fasteignar. Vegna skorts á viðhaldi er sú háttsemi farin að valda tjóni á Hvanneyrarbraut 32b sem liggur samhliða.
Tæknideild falið að senda húseiganda bréf þar sem gefinn er frestur til að skila inn tímasettri framkvæmdaáætlun, að öðrum kosti verði gripið til þess að leggja á dagsektir til að knýja fram úrbætur.