Ungmennafélagið Glói hefur séð um framkvæmd Kvennahlaupsins á Siglufirði undanfarin 18 ár en nú er komið að leiðarlokum þessa hlaups samkvæmt ákvörðun hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ).
Í tilkynningu til forsvarsmanna hlaupsins segir m.a: Frá því að fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið fyrir rúmum 30 árum hefur margt vatn runnið til sjávar. En fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ með það að markmiði að draga konur frá heimilisstörfunum og hvetja þær til að hreyfa sig meira og huga þannig að heilsu sinni.
Þessi markmið hafa náðst og gott betur, en jafnframt má sjá mikla aukningu í þátttöku kvenna í ýmsum störfum og stjórnum innan íþróttahreyfingarinnar hérlendis.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur í gegnum árin sameinað tvo mikilvæga þætti, samveru og hreyfingu, með farsælum árangri og á síðustu árum hefur Kvennahlaupið nýtt vettvang sinn til að minna á mikilvægi þess að allir hreyfi sig á sínum forsendum og að þátttakendur eigi ánægjulega samverustund á hlaupadag. Hlaupið hefur verið árviss viðburður hjá mörg þúsund manns um allt land sem og erlendis.
Nú er hins vegar komið að því að leggja Kvennahlaupið til hliðar og verður það því ekki haldið í ár.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Sjóvá hvetja hins vegar landsmenn til að huga að sinni daglegu hreyfingu fyrir betri líkamlega og andlega heilsu. Öll hreyfing skiptir máli.
Mynd/Ungmennafélagið Glói