Matvælaráðuneytið hefur undirritað samkomulag við Landbúnaðarháskóla Íslands (Lbhí) um framkvæmd verkefnis vegna kynbóta á byggi, hveiti og höfrum til ræktunar á Íslandi.

Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en ekki hefur verið unnið að kynbótum áður á hveiti og höfrum hérlendis. Nýjustu aðferðum við kynbætur í nytjaplöntum, sem ekki hefur verið nýtt hérlendis áður, er beitt í verkefninu. Þær aðferðir hraða mjög kynbótum og skila fyrr árangri.

Verkefni um kynbætur á byggi hófst í apríl 2023 sem byggir á tillögu úr skýrslunni Bleikum ökrum sem Lbhí vann um um eflingu kornræktar og kom út í mars sama ár. Hlé hefur verið á kynbótastarfi á byggi um nokkurt skeið en verulegt starf var unnið á árum áður undir forystu Þorsteins Tómassonar og Jónatans Hermannssonar. Verkefnið markar nýtt upphaf kornkynbóta á Íslandi.

Helsta markmið verkefnisins er að þróa og kynbæta yrki byggs, hafra og hveitis löguð að íslenskum aðstæðum. Annað markmið er að byggja upp hæfni og getu í plöntukynbótum og plöntuerfðafræði á Íslandi.

Gert er ráð fyrir að framlengja samkomulagið árlega til eins árs í senn fram til ársloka 2028. Niðurstöður tilrauna verða gefnar út fyrir bændur, ráðgjafa og sáðvöruinnflytjendur.

Mynd/iStock/Lydur