Vilhjálmur Sigurðsson skipstjóri lýkur löngum og farsælum sjómannsferli nú um áramótin.

Hann var 15 ára þegar hann fór fyrst á sjó en árið 1979 réð hann sig á Sigurbjörgu ÓF 1 sem þá var ný. Magnús Gamalíelsson hf. sem síðar sameinaðist Ramma hf. gerði Sigurbjörgina út og var Vilhjálmur skipstjóri á henni þar til Sólbergið kom árið 2017, og hefur hann verið fyrsti stýrimaður þar síðan þá.

Athyglisvert er að Vilhjálmur hefur starfað á aðeins tveimur skipum og ávallt hjá sömu útgerð, fyrst hjá Magnúsi Gamalíelssyni hf. sem síðar sameinaðist Ramma hf og síðast hjá Ísfélaginu sem Ramminn sameinaðist á árinu.

Var Vilhjálmi þakkað langt og farsælt samstarf og á forsíðumynd er hann með helstu samstarfsmönnum símum í landi og á mynd í frétt er hann ásamt Svavari Berg Magnússyni fyrrverandi framkvæmdastjóra MG hf. og síðar stjórnarmanni í Rammanum.

Heimild og myndir/Björn Valdimarsson

Sjá fleiri myndir eftir Björn á vefsíðu hans, www.bjornvald.is