Á 897. fundi fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar var tekin fyrir tillaga að rammaáætlun fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2026 fyrir þá málaflokka sem heyra undir nefndina.
Á fundinum sátu einnig Skarphéðinn Þórsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðvar, Ása Björk Stefánsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, og Kristín María Hlökk Karlsdóttir, skólastjóri leikskóla Fjallabyggðar. Þau fóru yfir helstu tölur í fjárhagsáætlun stofnana sinna, fyrirhugað viðhald og framkvæmdir, auk þess sem farið var yfir þau verkefni sem unnin hafa verið á yfirstandandi ári.
Nefndin samþykkti fyrirliggjandi tillögu að rammaáætlun fyrir árið 2026 fyrir sitt leyti og beindi jafnframt nokkrum ábendingum til bæjarstjórnar.
Nefndarmenn ítrekuðu mikilvægi þess að húsnæðismál Leikhóla verði leyst sem fyrst, þar sem núverandi húsnæði annar ekki eftirspurn eftir leikskólavist og búast má við fjölgun umsókna á næsta ári. Einnig hvöttu þeir bæjarstjórn til að skoða af alvöru möguleikann á gjaldfrjálsum leikskóla í Fjallabyggð.
Varðandi Grunnskóla Fjallabyggðar komu fram sjónarmið um að unnið verði áfram að lausn vegna flutnings 5. bekkjar til Ólafsfjarðar, þannig að hægt verði að ljúka sameiningu miðstigsins fyrir næsta skólaár.
Nefndin hvatti jafnframt bæjarstjórn til að leggja áherslu á viðhald stofnana og búnaðarkaup og að nýta þriggja ára áætlun til að tryggja stöðugleika í því starfi.
Eins og á yfirstandandi ári lagði nefndin til að sett verði 1,5 milljón króna fjárveiting í svokallaða „pop-up“ frístundastyrki, sem ætlaðir eru til að styðja námskeið fyrir börn, einkum yfir sumartímann.
Að lokum taldi nefndin eðlilegt að setja inn hvata til sameiningar allra íþróttafélaga undir eitt merki til að samræma búninga og draga úr kostnaði fyrir fjölskyldur.
Tillagan um rammaáætlun fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar 2026 var samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar skipa:
Viktor Freyr Elísson, formaður
Jakob Kárason, varaformaður
Sandra Finnsdóttir, aðalmaður
Katrín Freysdóttir, aðalmaður
Bryndís Þorsteinsdóttir, aðalmaður



