Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að konur treysti áfram á þjónustu Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) og sinni boðum um reglubundnar skimanir. Hún segir að allt verði gert til að rannsaka til hlítar hvað olli afdrifaríkum mistökum við leghálsskimanir hjá Leitarstöð KÍ og fyrirbyggja að slíkt geti endurtekið sig. Breytingar verða á fyrirkomulagi krabbameinsskimana um næstu áramót, þegar ábyrgð á leghálsskimunum færist frá Krabbameinsfélagi Íslands til heilsugæslunnar og brjóstaskimanir til Landspítala. Þessar breytingar tengjast ekki þeim mistökum sem nú eru til rannsóknar hjá embætti landlæknis. Þetta kemur fram í eftirfarandi yfirlýsingu heilbrigðisráðherra.

Yfirlýsing Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Mistök sem urðu hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) við skimanir vegna leghálskrabbameins eru alvarleg og afdrifarík. Ég harma þau og hugur minn er hjá þeim sem málið snertir á einhvern hátt og eiga um sárt að binda vegna þess.

Strax og mistökin urðu ljós tilkynntu stjórnendur Leitarstöðvar KÍ þau til embættis landlæknis líkt og skylt er samkvæmt lögum. Ýtarleg rannsókn málsins stendur yfir hjá embætti landlæknis og ég treysti því að hún muni leiða nákvæmlega í ljós hvað gerðist og hvernig megi fyrirbyggja að eitthvað sambærilegt geti átt sér stað.

Krabbameinsfélag Íslands hefur um áratuga skeið sinnt reglubundnum krabbameinsskimunum hjá Leitarstöð KÍ. Félagið á því að baki langt og farsælt starf og hefur til þessa notið trausts í samfélaginu. Mikilvægt er að svo verði áfram, enda sinnir félagið mikilvægu fræðslu- og forvarnastarfi í baráttunni gegn krabbameini og mun án efa halda því áfram um ókomna tíð.

Um næstu áramót verða breytingar á fyrirkomulagi krabbameinsskimana þegar ábyrgð á leghálsskimunum færist frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar og brjóstaskimanir til Landspítalans. Þessar breytingar hafa verið lengi í undirbúningi og tengjast ekki þeim mistökum sem hér um ræðir.

Það er skoðun mín að krabbameinsskimanir eigi að vera hluti af þjónustu opinbera heilbrigðiskerfisins líkt og raungerist um áramótin. Breytt skipulag sem þá tekur gildi byggist á tillögum skimunarráðs og embættis landlæknis og verður þar með nær því skipulagi skimana sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins.

Ég vil að lokum beina því til kvenna um land allt að sinna boðum um reglubundna krabbameinsskimun. Skimanirnar eru mikilvæg forvörn gagnvart illvígum sjúkdómi þar sem snemmgreining ræður miklu um meðferð, batahorfur og lífslíkur þeirra sem greinast. Hér er því mikið í húfi.

Mynd/Stjórnarráðið