Í ár fagnar Leikfélag Fjallabyggðar 10 ára afmæli. Af því tilefni verður efnt til afmælissýningar Ert‘eeki að meinaða!  í Tjarnarborg helgina 7. og 8. október. Leiksýningin Ert‘eeki að meinaða!  í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar býður gestum að gleðjast og rifja upp brot úr sögu félagsins sl. áratug en félagið hefur sett upp sex sýningar frá upphafi og unnið ómetanlegt starf í þágu menningar og lista í Fjallabyggð.

Tilurð Leikfélags Fjallabyggðar varð þegar Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar sameinuðu krafta sína með uppsetningu á nýju gamanleikriti Stöngin inn eftir Guðmund Ólafsson sem jafnframt leikstýrði.

Það var greinilega svo mikill kraftur í hinum sameinuðu leikfélögum, sem létu það ekki aftra sér að brjótast í gegnum skaflana milli byggðakjarna í þeim tilgangi að skapa skemmtilega og fjöruga leiklist fyrir bæjarbúa og aðra gesti, því sýningin hitti svo rækilega í gegn að var hún valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2013 af valnefnd Þjóðleikhússins.  Leikfélaginu var í framhaldinu boðið að sýna á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 16. júní sama ár sem var mikill heiður og lærdómsríkt ferli fyrir leikarana.

Leikritið Stöngin inn, vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu, þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann, en í uppsetningu leikfélaganna voru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freistuðu þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti. Hugmyndin virkaði þrælvel og var sýningin vel heppnað og gamansamt innlegg í umræðuna um samskipti kynjanna.

Í umsögn með tilnefningunni um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins þótti verkið henta leikhópnum einstaklega vel, leikgleðin var mikil og leikararnir náðu að móta bráðskemmtilegar persónur. Framsögn þeirra þótti skýr og þau höfðu góða tilfinningu fyrir tímasetningum, sýndu persónum og viðfangsefninu ákveða hlýju og skiluðu af sér bráðfyndinni og skemmtilegri leiksýningu. Í framhaldi af tilnefningunni tóku leikfélögin ákvörðun um að starfa saman undir einum hatti, enda sterkari saman í einu leikfélagi Leikfélagi Fjallabyggðar.

Miðasala á afmælissýninguna fer fram hjá Guðrúnu í síma 863-2604 eða Vibekku í síma 849-5384 milli kl. 16:00 og 17:00

Mynd/Leikfélag Fjallabyggðar