Leikfélag Fjallabyggðar æfir nú nýtt leikrit eftir Guðmund Ólafsson, sem jafnframt er leikstjóri. 

Verkið heitir BIRGITTA KVEÐUR og er sagt vera ”sakamálaleikrit með gamansömu ívafi”.

Æfingar hófust tólfta september og frumsýning verður 28. október.

Leikritið gerist á einu föstudagssíðdegi og kvöldi í litlu innflutningsfyrirtæki, sem hefur sérhæft sig í innflutningi frá Kína.

En þetta er ekki venjulegur dagur því um kvöldið á að kveðja elsta starfsmanninn, hana Birgittu, sem er að láta af störfum vegna aldurs. Er að því tilefni slegið upp kveðjuveislu. Er óhætt að segja að kvöldið verði viðburðarríkt og óvæntir atburðir gerist þannig að kalla þarf til lögreglu.

Þrettán leikarar taka þátt í sýningunni auk baksviðsfólks af öllu tagi. Ljósameistari er Anton Konráðsson.

Þetta er fimmta leikritið sem Guðmundur skrifar sérstaklega fyrir leikfélagið og hefur hann jafnfram leikstýrt þeim öllum.

Eitt þeirra, ”Stöngin inn!”, var valin áhugaverðasta áhugaleiksýningin árið 2013 og sýnd í Þjóðleikhúsinu.

Frumsýning er sem áður segir 28. október í Menningarhúsi Fjallabyggðar, Tjarnarborg.

Miðapantanir: Guðrún Unnsteinsdóttir 863-2604 og Vibekka 849-5384