Leikritið „Á frívaktinni” eftir Pétur Guðjónsson verður sett á svið af Leikfélagi Fjallabyggðar og er frumsýning áætluð í mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá leikfélaginu.
Leikritið gerist í sjávarþorpi á Íslandi á tímum síldaráranna, þegar síldin var duttlungarfull og hafði afgerandi áhrif á líf og afkomu fólks í sjávarbyggðum landsins. Sagan dregur upp mynd af samfélagi þar sem gleði og sorg fara hönd í hönd og mannlífið mótast af óvissu og vonum sem fylgdu síldinni.
Í tilkynningu Leikfélags Fjallabyggðar segir að sagan snerti marga strengi og sé í senn falleg og fjörug, auk þess sem hún er fléttuð saman við þekkt sjómannalög sem setja sterkan svip á verkið.
Eysteinn Ívar Guðbrandsson hefur verið ráðinn leikstjóri sýningarinnar. Um er að ræða fjölmennt verkefni þar sem bæði eru stór og smá hlutverk, auk fjölda fólks sem kemur að leikmynd, búningum, förðun, lýsingu og öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem þarf til að setja upp leiksýningu.
Leikfélagið leitar nú að áhugasömu fólki sem hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu. Samkvæmt tilkynningu er öllum boðið að líta við í Tjarnarborg sunnudaginn 25. janúar klukkan 20.00. Leikfélagið hvetur áhugasama til að mæta og kynna sér verkefnið nánar, án skuldbindinga.
Myndin sem fylgir er úr sýningunni Bjargráð, sem hlaut góðar undirtektir í fyrra, og var tekin af Vibekku Arnardóttur.
