Síðastliðið föstudagskvöld brá ég mér í leikhús og sá uppfærslu Leikfélags Fjallabyggðar á farsanum Beint í æð eftir konung farsanna Ray Cooney í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð.
Gestir streymdu inn í salinn og greina mátti tilhlökkun gesta, á móti manni tók stílhrein og flott leikmynd. Eina sem mér fannst mögulega vanta upp á var að hafa smá tónlist í salnum áður en sýningin hófst.
Jón Borgar, yfirlæknir taugadeildar, leikinn af Óðni Löve er í burðarhlutverki og byrjar sýninguna með góðum krafti og skilar sínu hlutverki afar vel út alla sýninguna. Með hlutverk Grettis, skurðlæknis á Landakoti fer Fannar Þór Sveinsson og er hann mjög flottur og skemmtilegur í sínu hlutverki. Það sem er magnað er að þetta er frumraun Fannars á sviði og vonandi munum við sjá meira af honum á sviði. Þeir tveir eru svo einnig mjög fyndnir í senu þegar þeir bregða sér báðir í hlutverk Jórunnar yfirdeildarhjúkrunarfræðings til að reyna bjarga því flækjustigi sem upp kemur. Súsanna er leikinn af Hörpu Hlín Jónsdóttur og er hún örugg og flott í sínu hlutverki sem eiginkona Jón Borgars. Friðrik Birgisson skilar hlutverki sínu sem Páll Óskar yfirlæknir á Landakoti einnig vel, skemmtileg blanda á að vera stressaður yfirmaður og slakur þegar hann fær eitthvað gott í glas. Þegar Díana, fyrrverandi skurðhjúkrunarfræðingur sem leikin er af Hönnu Bryndísi Þórisdóttur mætir á Landakot eftir langa fjarveru með fréttir fyrir Jón Borgar og fer þá af stað hröð og skemmtileg atburðarás sem leysist ekki fyrr en í lokin og nú verður þú einfaldlega að mæta í leikhús til að sjá. Hanna Bryndís skilar sínu hlutverki vel og skemmtileg blanda af fyrrverandi starfsmanni og áhyggjufullri móðir Frímanns.
Frímann, sonur Díönu er leikinn af Víkingi Ólfjörð Daníelssyni sem stendur sig mjög vel og er afar skemmtilegur, kraftmikill og sannfærandi í sínu hlutverki en þetta er í fyrsta sinn sem hann leikur í farsa.
Sama má segja um annan nýliða á sviði en Mannfreð, elliær sjúklingur, leikinn af Kristni Magnússyni er frábær í sínu hlutverki og heldur vonandi áfram að leika líka.
Gríma Briem, læknir á Landakoti leikin af Maríu Bjarney Leifsdóttur er skemmtileg og mikil leikgleði hjá henni við það að reyna að drífa gerð myndbands áfram fyrir vinnu þorrablóts gleði.
Jórunn, yfirdeildarhjúkrunarfræðingur, leikin af Sigríði Guðmundsdóttur er mjög flott í sínu hlutverki og sannfærandi í leik eftir að hafa fengið haldol, spurning hvort eitthvað var í sprautunni ?
Bera, rannsóknarlögreglukona er leikin af Margréti Kristinsdóttur heldur vel utan um sitt hlutverk við að reyna að skilja alla þessa flækju og reyna að greiða úr henni.
Gróa, móðir Grettis leikin af Þuríði Sigmundsdóttur er mjög skemmtileg í hlutverki heyrnaskertrar móður.
Heilt yfir er sýningin frábær skemmtun. Valgeir leikstjóri hefur unnið góða vinnu með góðu kasti í hlutverk og náð góðri vinnu með hópnum. Sýningin tikkar í þau box sem góður farsi þarf að hafa, hröð, tæmingar upp á 10,5, sýningin er skemmtileg og það fyndin að nokkrar setningar týndust í hlátri í sal. Góður hópur bakvið tjöldin hefur unnið sína vinnu vel þar sem leikmynd, leikmunir, búningar, smink og tæknimál var allt í góðum málum.
Hvet alla til að drífa sig í að panta miða og lengja lífið með hlátri.
Takk fyrir góða skemmtun
Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður Leikfélags Sauðárkróks.
Heimild og mynd/aðsent