Í gær 5. febrúar hófst Lífshlaupið, en það er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa.
Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
- vinnustaðakeppni frá 5. febrúar – 25. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
- framhaldsskólakeppni frá 5. febrúar – 18. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
- grunnskólakeppni frá 5. febrúar – 18. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
- einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið
Eins og ávalt hvetjum við alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum/í skólanum.