Blanda er þekkt fyrir stórlaxa og það var bara spurning um tíma hvenær 20 punda lax veiddist þar í sumar.

Bjarki Már Jóhannsson leiðsögumaður við Ytri Rangá var við veiðar fyrir tveimur dögum i Blöndu þegar hann fékk 97 sm lax sem var vigtaður 20 pund.  Laxinn í Blöndu er þykkur og sver svo þeir sem hafa séð myndina af þessum laxi segja að hann gæti alveg verið 1-2 pundum þyngri.

“Ég fékk fiskinn á Breiðunni norðan megin í Blöndu, tók neðst á brotinu lítinn strippaðan sunray, fann strax að þetta var stór fiskur, eins og venjan er í Blöndu á þessum tíma. Tók mjög fast á honum allan tíman til að halda honum frá að snúa sér niður í strenginn og landaði honum síðan með hjálp Jakobs Hinrikssonar. Frábær túr í vorveiði í Blöndu. Allir fiskarnir sem við snertum voru mjög vænir og greinilegt að þeir hafa haft það gott í sjónum í ár.” sagði Bjarki í samtali við Veiðivísi.  Hann bætti svo öðrum 90 sm við daginn eftir og það er greinilegt að laxinn kemur vel haldinn upp í Blöndu þetta árið.

Frétt: visir.is