Undanfarin ár hefur listafólki af nærsvæði skólans verið boðið að sýna verk sín í sal skólans og nú hefur ný sýning verið sett upp þar. Sýningin kallast ÍSA-VATNA-HEIMUR og samanstendur af glermyndum, ljósmyndum og blýantsteikningum á pergamentpappír eftir Piu Rakel Sverrisdóttur. Eftir nám í arkitektúr og hönnun er samspil listaverka og rýmis henni afar hugleikið og í verkunum á þessari sýningu sækir hún m.a. innblástur til landslagsins í Ólafsfirði; fjöllin háu og vatnið inn af firðinum með furðufiskum og leyndum ævintýrum. Sýningin verður opin út október, á opnunartíma skólans, og er öllum velkomið að líta inn og skoða.
Pia Rakel er íslensk-finnsk ættuð glerlistakona fædd í Skotlandi árið 1953. Á yngri árum flutti hún til Íslands og bjó þar þangað til hún lauk stúdentsprófi. Tilviljun réð því að sem barn og fram undir fermingu var hún flest sumur á Siglufirði og líkaði vel sá ævintýraheimur sem opnaðist fyrir henni þar. Að loknu stúdentsprófi lá leiðin til Kaupmannahafnar í Konunglega arkitektaskólann og síðar í Danska hönnunarskólann. Í Kaupmannahöfn starfaði hún svo næstu áratugina, rak m.a. sitt eigið glerlistaverkstæði, starfaði sem gestakennari við ýmsa skóla og vann fjölda skreytingarverka fyrir fyrirtæki og stofnanir. Árið 2015 kom Pia aftur til Siglufjarðar og vann að list sinni í gestavinnustofu Herhússins og varð aftur ástfangin af staðnum. Er hún nú búsett hluta ársins á Siglufirði og rekur þar vinnustofu.
Pia byrjaði snemma að gera tilraunir með að endurnýta gluggagler og nota það sem einingar eða skraut fyrir byggingar. Fékk hún m.a. styrk til þriggja ára úr Hönnunarsjóði Kaupmannahafnar til að gera tilraunir og og rannsóknir á notuðu gleri til endurvinnslu á veggflísum og inniveggjum. Sem glerlistamaður er hún ekki síst þekkt fyrir að nota sandblástur í verk sín og íslensk náttúra og náttúrufyrirbrigði eru gjarnan viðfangsefnin.
Pia Rakel hefur tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis sem erlendis og verk hennar er að finna í byggingum víða um heim. Myndir
Myndir/Kristján Jóhannsson