Einstakir tónleikar undir berum himni í hinu sögufræga Borgarvirki eru magnaður viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Tónleikarnir eru liður í hátíðinni “Eldur í Húnaþingi”.

Í ár eru það Diana Sus og Högni sem koma fram á tónleikunum.

Högni Egilsson hefur komið víða við á fjölbreyttum tónlistarferli sínum. Högni hefur samið tónlist með hljómsveitum sínum Hjaltalín og GusGus auk sólóverkefnisins HE. Þá hefur hann samið fjöldamörg tónverk fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.

Diana Sus, sem er frá Lettlandi, hefur verið búsett á Íslandi í rúm tvö ár, og flutti norður til Akureyrar til að stunda nám í skapandi tónlist við tónlistarskólann á Akureyri.
Diana hefur starfað í heimalandi sínu sem söngkona og lagahöfundur, en hún spilar m.a. indie rokk, þjóðlagatónlist, rockabilly og jazz.

Rútur ganga frá tjaldsvæðinu á Hvammstanga og Félagsheimili Hvammstanga. Rétt er að minna gesti á að klæða sig vel.

Borgarvirki er sögustaður sem ber að virða, og gestir eru beðnir um að taka allt rusl með sér til baka. Hundar eru ekki leyfilegir. Reykingar bannaðar.

Bílastæði við Borgarvirki eru afar takmörkuð. Fólk er því beðið um að taka helst rútuna, eða að öðrum kosti nýta sætin í einkabílunum vel og ferðast ekki einn og einn í bíl.