Tuttugu ár eru liðin frá því að alþjóðlegur sáttmáli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um bann við tóbaksauglýsingum og margvíslegar aðgerðir til að sporna við reykingum var staðfestur. Sáttmálinn var jafnframt fyrsti alþjóðlegi samningurinn um lýðheilsu. Þessara tímamóta verður minnst á morgun á 75. þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nú stendur yfir í Genf.
Aðdragandinn að gerð sáttmálans hófst í maí 1999 þegar aðildarþjóðir WHO samþykktu að hefja samningaviðræður um frumdrög að alþjóðasáttamála um tóbaksvarnir. Áhersla var lögð á ná samkomulagi um aðgerðir til að takmarka framleiðslu og neyslu tóbaks, m.a. hækkun skatta á tóbak, bann við tóbaksauglýsingum og ýmsum skorðum við sölu og markaðssetningu tóbaks.
Öll aðildarríki WHO samþykktu sáttmálann (Framework Convention on Tobacco Control) á 56. þingi stofnunarinnar árið 2003. Gro Harlem Brundtland sem þá var framkvæmdastjóri WHO sagði samkomulagið sögulegt og legði grunn að því að bjarga ótölulegum fjölda mannslífa og vernda heilsu komandi kynslóða. Til að sáttmálinn yrði að veruleika þurftu 40 aðildarríki WHO að staðfesta hann. Þetta markmið náðist þann 21. maí 2003 og var Ísland með fyrstu þjóðum til að staðfesta og fullgilda samninginn.
Hringborðsumræður á þingi WHO í beinni útsendingu 27. maí
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stendur fyrir hringborðsumræðum kl. 11.00–13:15, laugardaginn 27. maí þar sem 20 ára afmælis tóbaksvarnasáttmálans, fyrsta alþjóðlega samningsins um lýðheilsu, verður fagnað. Þar verður jafnframt rætt um árangur tóbaksvarnasáttmálans og frekari aðgerðir í þágu lýðheilsu. Hægt verður að fylgjast með hringborðsumræðunum í beinni útsendingu á vef WHO.
Forsíðumynd/pixabay