Skólamálaþing KÍ fór fram með pompi og prakt þann 6. nóvember. Þar greindi formaður KÍ frá því að hann sækist eftir endurkjöri.
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, greindi frá því á Skólamálaþingi að hann sæktist eftir endurkjöri til formanns Kennarasambandsins.
Magnús var kjörinn formaður KÍ árið 2021 og tók við embætti formanns á þingi KÍ í apríl 2022.
Skólamálaþingið að þessu sinni var í senn afmælishátíð en sambandið fagnar 25 ára afmæli á þessu ári.
Magnús kom víða við í ræðu sinni og fjallaði meðal annars um kennarahjartað og mikilvægi þess að kennarastéttin sé sameinuð í einu sambandi. „Við erum sterk saman og það er ákveðinn kjarni sem sameinar okkur,“ sagði Magnús og vísaði til þess að kennarahjartað slær með sama hætti í stéttinni, hvort sem kennarar starfa við tónlistarkennslu, í leikskóla, framhaldsskóla eða grunnskóla, úti á landi eða í borginni.
Hann sagði jafnframt ekki sjálfgefið að vera í jafn öflugu kennarasambandi og KÍ er. Stéttarfélög víða um heim, jafnvel í nágrannalöndunum. sættu árásum hægri afla. Því bæri að þakka forverum að stofnun KÍ, þeim sem gengu á undan og bjuggu til grunninn sem Kennarasambandið í dag stendur á.
Magnús lauk ræðu sinni á að hvatningu til félagsfólks um að lyfta kennarahjartanu, vera hugrökk, vinna saman og gera enn betur nemendum, skólafólki, landi og þjóð til heilla.
Framboðsnefnd KÍ mun á næstunni tilkynna hvernig framboðsfresti í formannskjöri verður háttað.
Níunda þing Kennarasambands Íslands fer fram um miðjan apríl á næsta ári.
Mynd/KSÍ
