“Það er ekki viðunandi að fóðra vargfugl í nágrenni við æðarvarp og  matvæla­framleiðslu“,
er haft eftir Sigurjóni Þórðarsyni framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra á vef Bændablaðsins bbl.is

Ingvar H. Jakobsson hjá ferða­þjónustunni á Ytri-Árbakka og Ástmundur og Hanný Norland, æðarbændur á Sæbóli á Vatnsnesi, sem einnig reka hrossaræktarbúið Hindisvík, sendu sveitarstjórn Húnaþings vestra bréf í fyrrahaust þar sem krafist er úrbóta á frárennslismálum slátur­hússins á Hvamms­tanga. Þar kemur fram að mjög mikil og greinileg mengun hafi runnið frá sláturhúsinu mörg undanfarin ár og að þau hafi reglulega kvartað undan henni bæði við heilbrigðisfulltrúa og MAST.

„Mengunin lýsir sér þannig að fitubrák og annar úrgangur rekur á fjörur sem hænir að hundruð máva og einnig hrafna. Einnig finnst greinileg lyktarmengun þegar fitulögin þrána í fjörunum, sem gerir þær óhæfar til útivistar,“ segir í bréfi þeirra til sveitarstjórnar.

Ástmundur og Hanný á Sæbóli segja málið einkum og sér í lagi snúast um fuglagerið sem sveimi umhverfis affallið allan sólarhringinn og sitji í fjörunni að tína upp kjötbita. Þau segjast hafa kvartað yfir þessu til heilbrigðiseftirlits árlega frá árinu 2013, en ástandið sé ævinlega óbreytt. Fleiri aðilar, eins og sveitar­félagið og MAST, hafi fengið afrit af bréfunum en síðarnefnda stofnunin segir málið ekki koma sér við og vísar á heilbrigðiseftirlit.
Ástmar og Hanný segja að fugla­gerið við affallið skapi óþolandi stöðu fyrir æðarfuglinn, því fylgi að auki mikill óþrifnaður fyrir þorpið.
Sjá nánar á bbl.is