Í tilefni af afmæli enska aðalsmannsins Mark Watson stendur Byggðasafn Skagfirðinga fyrir dagskrá í Glaumbæ í dag, 18. júlí.

Watson var mikill Íslandsvinur og á sveitarfélagið honum margt að þakka, þar með talið rausnarleg peningagjöf til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ árið 1938 sem átti sinn þátt í að bærinn hefur varðveist. Watson hefur jafnframt verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundsins og er afmælisdagur hans “Dagur íslenska fjárhundsins”.

Heiðursgestur dagsins verður Patricia Putman sem hefur tileinkað líf sitt hundarækt og þjálfun og hefur íslenski fjárhundurinn þar skipað stærstan sess. Pat er formaður fræðslunefndar dómara og fulltrúi AKC fyrir samtök íslenska fjárhundsins í Ameríku (ISAA). Pat vann með Mark Watson á 5. áratugnum að bók hans “The Iceland Dog 874–1956”. Hún átti auk þess stóran þátt í vali og innflutningi á átta íslenskum hundum til Bandaríkjanna. Pat mun segja nokkur orð um Mark Watson og íslenska fjárhundinn í tilefni dagsins. Streymt verður frá erindi Pat á Facebook, athugið erindið er á ensku.

Í tilefni dagsins er frítt á safnið fyrir eigendur íslenskra fjárhunda í fylgd með hundunum.

Ókeypis aðgangur er fyrir börn yngri en 18 ára og er vert að minna lögheimilisíbúa Skagafjarðar á ársmiðann, sem gildir í eitt ár frá kaupum hans óháð fjölda heimsókna.

Á kaffihúsi safnsins í Áshúsi er í boði góðgæti fyrir menn og hunda. Gestir eru hvattir til að fá sér “high tea” að hætti breska aðalsins!

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Sögusetur íslenska fjárhundsins.

Mynd/af vefsíðu Skagafjarðar.is