Þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum hefur verið opnuð á Island.is.
Markmiðið er að bæta aðgengi fólks, hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar, að þeim aðilum sem hafa með mat á menntun að gera. Um er að ræða stórt skref til einföldunar fyrir þá sem þurfa á mati að halda því loks geta þeir fengið á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar á menntun eða hæfi. Tilgangurinn með mati getur verið margþættur, s.s. vegna innskráningar í skóla, vegna viðurkenningar á námi vegna launaröðunar, vegna veitingu starfsréttinda sem skilyrði fyrir því að starfa í tiltekinni fagstétt o.s.frv.
Vinna við þjónustugáttina hefur verið leidd af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Stafrænt Ísland, ENIC/NARIC og fleiri lykilaðila sem koma að mati á námi. Það hefur lengi verið ákall um að bæta þjónustuna og einfalda verkferla. Málaflokkurinn er mjög víðfeðmur en fjöldinn allur af sérmenntuðum aðilum hér á landi metur nám og veitir leyfi fyrir einstaka starfs- eða námsgreinar. Mikilvægt er að fólk með sérþekkingu komi að matinu enda geta einstaklingar öðlast réttindi með slíku ferli til að sinna veigamiklum störfum í samfélaginu, hvort sem það snýr að byggingu húsa eða aðgerðum á sjúkrahúsum.
Með þjónustugáttinni er fyrst og fremst verið að tengja þessa miðlægu síðu við alla þá sem koma að mati og viðurkenningu á námi hér á landi.
Komast má inn á þjónustugáttina hér.
Mynd/aðsend