Eftirfarandi pistill eftir Elías Pétursson bæjarstóra Fjallabyggðar var birtur á vefsíðu Fjallabyggðar þann 26. mars 2021

Fyrir ekki mörgum dögum taldi ég, eins og svo margi aðrir, að framundan væru nokkuð hefðbundnir páskar með ferðalögum, fermingum og samverustundum… svo reyndist ekki vera og eru það nokkur vonbrigði. Fyrir réttu ári, þegar ég hafði rétt ný hafið störf sem bæjarstjóri í Fjallabyggð, þá var farið í sambærilegar lokanir. Á þeim tíma stóðu væntingar til þess að veiran væri skammtímaverkefni, annað hefur komið á daginn.

Sá er þetta ritar getur ekki annað en dáðst að þreki og jafnaðargeði íbúa Fjallabyggðar sem og fyllst aðdáun á því fólki sem af stakri prýði stendur í framlínu og lætur hvergi undan kvika. Þar er m.a. um að ræða starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, aðhlynningu ýmiskonar, afgreiðslufólk í verslunum og stofnunum, starfsfólk leikskóla og marga fleiri. Öllu þessu fólki er ég þakklátur.

Hjá sveitarfélaginu hefur verið brugðist við með þeim hætti sem þarf og reglur segja til um. Starfsemi skrifstofu sveitarfélagsins hefur verið sniðin að reglu um almennar fjöldatakmarkanir, þ.e. hámark 10 í rými, og tveggja metra reglu. Nánari upplýsingar um það má nálgast hér.

Eftir gildistöku reglugerðar 321/2021 um samkomutakmarkanir 25. mars sl. er starfsemi helstu þjónustustofnana með eftirfarandi hætti.

Grunnskólinn lagði niður skólastarf fram yfir páska, sem og félagsmiðstöðin Neon. Tónlistarskólinn skipti yfir í netkennslu síðustu dagana fram að páskafríi. Leikskólinn starfar með skilyrðum þar sem aðeins 10 starfsmenn mega vera í hverju sóttvarnarhólfi. Tekið er á móti börnum og þeim skilað við útidyr. Ný reglugerð er ein sú strangasta til þessa með tilliti til starfsemi leikskóla. Óhætt er að segja að stjórnendur og starfsfólk leikskólans sýni mikla útsjónarsemi við að breyta skólastarfi og hugsa upp lausnir með engum fyrirvara. Starfsfólk á mikið hrós skilið fyrir þolgæði, sveigjanleika og jákvæðni og því ber að þakka jákvæðni, alúð og seiglu. Bið ég foreldra að hafa samband við leikskólann í gegnum skilaboð í Karellen, með tölvupósti eða símleiðis en ekki staldra við þegar komið er með börn eða þau sótt.

Sundlaugum, íþróttahúsum og líkamsræktarstöðvum hefur verið lokað en áfram verður hægt að fá leigð lóð/ketilbjöllur úr líkamsræktinni. Af fenginni reynslu fyrri lokana býðst þeim notendum sem eiga árskort að fá takmarkaðan fjölda lóða/ketilbjallna leigða út á árskortið sitt í stað frystingu á korti. Að öðrum kosti er greitt fyrir hvert lóð/ketilbjöllu.

Bókasafnið hefur aðlagað sig að nýrri reglugerð. Engin breyting er á opnunartíma safnsins og er það opið frá kl. 13.00-17.00 virka daga. Í safninu er grímuskylda og er gestum bent á að lágmarka tíma sinn á safninu enda er þar, eins og annarsstaðar, 10 manna hámarksfjöldi gesta.

Eins og við er að búast hafa hertar samkomutakmarkanir áhrif á fyrirhugaðar samkomur og hátíðarhöld og m.a. er verið að skoða frestun á fyrirhugaðri barnamenningarhátíð í Fjallabyggð sem fara átti fram dagana 12.-17. apríl í samstarfi við listamenn og skóla í sveitarfélaginu.

Hvað skíðasvæðin okkar varðar þá eru skíðabrekkur lokaðar en gönguskíðabrautir mega vera opnar. Hvað mér skilst þá er ákvörðun um lokun skíðabrekkna m.a. studd þeim rökum að þar séu sameiginlegir snertifletir í skíðalyftum og víðar. Sem er rétt og ágæt rök, en vekur samt upp spurningar þegar horft er t.d. á fréttamyndir af mannmergðinni sem dregur sig eftir kaðli á gönguleiðinni að og frá gosinu á Reykjanesi. Það er í það minnsta auðvelt að hafa skilning á vonbrigðum og jafnvel gremju þeirra sem sitt eiga undir opnum skíðasvæðum og tekjum páskavikunnar. Þar eru margir undir, bæði rekendur skíðasvæða sem og þeir sem þjónusta skíðafólkið.

Eins og fram kemur hér að framan þá urðu mér, eins og svo mörgum, það nokkur vonbrigði þegar heyrðist af aðgerðum vegna fjórðu bylgju farsóttarinnar, ekki vegna þess að ég væri aðgerðum ósammála heldur vegna þess að ég, eins og aðrir, hafði væntingar um annað. Viðurkenni að þegar ég horfði á fréttamannafund ráðherra ríkisstjórnarinnar í vikunni þá leið mér svolítið eins og peði í slönguspilinu gamla, ég hefði lent á slöngu og verið sendur lóðbeint aftur á byrjunarreit.

Nú er ekkert annað að gera en að kasta teningum og leggja í ferðina aftur upp spilið, kannski fáum við gott kast, kannski ekki. Stóra málið er að við látum ekki hugfallast og munum að eftir því sem fleiri tilraunir eru gerðar þá aukast líkur á sigri… og að í hverri atrennu gefst færi á að læra eitthvað nýtt.