Vakin er athygli á því að nú er varptími fugla hafinn. Því eru hunda- og kattaeigendur vinsamlega beðnir að taka tillit til þess og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda skepnum sínum frá þessum fiðruðu vorboðum.

Á Siglufirði er það svæðið í kringum Leirurnar, Langeyrartjörn og á tanganum við Innri höfn.

Í Ólafsfirði er það svæðið í kringum Ólafsfjarðarvatn.

Varðandi hundasvæði á Siglufirði þá er það í Skútudal sunnan vegarins sem liggur upp í Héðinsfjarðargöng.
Svæðið er óafgirt og stórt. Hægt er að nálgast svæðið frá tveimur stöðum. Þegar keyrt er frá bænum er hægt að beygja til hægri annars vegar við afleggjara rétt ofan við kirkjugarðinn og hins vegar við afleggjara rétt utan við munna Héðinsfjarðarganga.
Hundasvæðið í Ólafsfirði er í Skeggjabrekkudal sunnan golfvallar. Svæðið er óafgirt og stórt. Hægt er að nálgast svæðið með því að keyra Garðsveg og beygja upp í dalinn við afleggjara rétt sunnan við brúna yfir ána.

Náttúrufar og dýralíf í Fjallabyggð

 Tröllaskagi er skapaður af tveimur höfuðsmiðum þessa lands, jarðeldum og jöklum. Talið er að jarðlögin á landsvæði Fjallabyggðar, blágrýtissvæðinu, hafi runnið fyrir mörgum milljónum ára. Blágrýtissvæðin hér norðanlands og á Vestfjörðum er með elstu hlutum Íslands.

Á nokkrum endurteknum ísaldarskeiðum hafa skriðjöklar sorfið til fjöllin og skafið niður skálar og dali. Frá því að síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10 þúsund árum hafa veðrun og sjávarrof bætt um betur til að móta það landslag sem við þekkjum nú.

Margt bendir til þess að veðráttan hafi verið mjög breytileg á þessum slóðum á þeim óralanga tíma sem menn mæla í sögu jarðarinnar. Leifar af steinrunnu rauðviðartré sem fundist hefur í einu af fjöllum Siglufjarðar segja okkur að þegar það tré óx hafi loftslag verið hér svipað og nú er sunnarlega í N-Ameríku og Suður Evrópu.

Eitt af því sem einkennir Fjallabyggð er mikið fuglalíf allt árið um kring. Um 2000 fuglar af 16-18 tegundum eru taldir að jafnaði í Siglufirði í jólatalningu Náttúrufræðistofnunar. Enn fleiri tegundir teljast til varpfugla svæðisins og fer þeim sífjölgandi sem reyna varp hvort sem þær festa sig í sessi sem fastir varpfuglar eða ekki.

Fjölbreytilegasta fuglalífið í Siglufirði er í kringum Leirurnar svo nefndu, flæðisanda innst í firðinum. Þar hefur frá því um 1980 orðið til allstórt kríu- og æðarvarp, beggjamegin fjarðar. Ætla má að 1980 hafi 50 kríur og 20-30 æðarfuglar verpt á svæðinu. Árið 1997 voru varpfuglarnir margfalt fleiri eða á.a.g. 500 kríupör og 750 æðarpör.

Áður fyrr var umtalsvert kríuvarp á Úlfsdölum, í Héðinsfirði og á Siglunesi, en á öllum þessum stöðum lagðist varp niður að mestu er fólkið flutti burtu. Greinilegt var hve þessum fugli fjölgaði inni í firðinum eftir að Siglunes fór í eyði.

Ólafsfjarðarvatn

Ólafsfjarðarvatn er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Það er lagskipt með fersku og söltu vatni og sums staðar eru hlý vatnslög og er á náttúruminjaskrá vegna þessara eiginleika. Vatnið er um 2,5 ferkílómetrar að stærð; um 3 km á lengd og um 1 km á breidd þar sem það er breiðast. Allbreitt rif, sand- og malarkambur, ca 250 m breitt skilur vatnið frá sjónum og rennur ós úr því til sjávar. Ólafsfjarðarkaupstaður stendur að hluta til á þessu rifi. Ekki er talið ólíklegt að vatnið hafi áður fyrr verið alveg opið til sjávar en lokast svo af smám saman.

Vatnið er frekar grunnt, mesta dýpi er um 10 – 11 metrar. Ólafsfjarðarvatn eykur við hina sérkennilegu og stórbrotnu fegurð byggðarinnar, og var fyrr á árum og öldum mikil viðbót við matarforðabúr Ólafsfirðinga og bjargaði áreiðanlega mörgum frá hungri. Silungsveiði er með ágætum í vatninu og sjófiskar svo sem þorskur, ufsi, koli, síld og fleiri tegundir hafa veiðst þar öldum saman.
Vegna þessa var Ólafsfjarðarvatn umtalað mjög og svo víða barst frægð þess að árið 1891 sendu Frakkar herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna sem rannsökuðu vatnið og var skrifað um niðurstöðurnar í virt franskt vísindarit.

Getið er um maurungsveiði í vatninu og það talið til hlunninda, en maurungur var sá þorskur nefndur sem veiddist í vatninu. Þá er getið um síldargöngur miklar á stundum. Frekar hefur dregið úr veiði sjófiska hin síðari ár. Bændur hafa netalagnir í vatninu á sumrin og veiðist oft nokkuð vel.

Það getur verið mjög gaman að renna fyrir silung að sumarlagi í góðu veðri hvort sem er af vatnsbakkanum eða af báti úti á vatni. Seglbretta- og bátasiglingar á vatninu hafa verið stundaðar enda kjöraðstæður oftast nær. Umferð mótorbáta er þó ekki leyfð.

Mikið fuglalíf er í Ólafsfirði og við Ólafsfjarðarvatn.

Á vetrum leggur vatnið og hafa menn löngum veitt í gegn um vakir. Ólafsfjarðarvatn þykir mjög skemmtilegt vatn til dorgveiði þar sem nokkuð vel veiðist og líka vegna fjölbreytni fisktegunda.

Þá hefur skautafólk notað vatnið í fallegu vetrarveðri sér til skemmtunar.

Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Heimild: Fjallabyggð