Um áramót tóku gildi ýmsar skattabreytingar er snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Áhrif þeirra eru metin til samtals 18 ma.kr. lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Auk þess nema tímabundnir skattastyrkir í VSK til stuðnings vistvænum samgöngum og framkvæmdum við íbúðarhúsnæði o.fl. alls 13 ma.kr. á árinu. Hér verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa og öðrum skjölum málanna á vef Alþingis.

Tekjuskattur einstaklinga

Um áramótin mun síðari áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga taka gildi. Þessi seinni áfangi felur í sér lækkun á grunnþrepi tekjuskatts um 3,60 prósentustig og hækkun á miðþrepi tekjuskatts um 0,75 prósentustig. Nýju skattprósenturnar verða því 17% í grunnþrepi og 23,5% í miðþrepi. Við prósenturnar bætist síðan útsvarsprósenta sveitarfélaga.

 20202021
Prósenta í grunnþrepi35,04%31,45%
Prósenta í miðþrepi37,19%37,95%
Prósenta í háþrepi46,24%46,25%
  
 Á áriÁ mánuðiÁ áriÁ mánuði
Þrepamörk upp í miðþrep4.042.995336.9164.188.211349.018
Þrepamörk upp í háþrep11.350.472945.87311.758.159979.847
  
Persónuafsláttur655.53854.628609.50950.822
Skattleysismörk tekjuskattsstofns1.870.828155.9021.938.024161.501
Skattleysismörk launa*1.948.779162.3982.018.775168.230

* að teknu tilliti til lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð

Barnabætur

Um áramótin hækka neðri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta. Skerðingarmörkin hjá einstæðum foreldrum hækka úr 3,9 m.kr. á ársgrundvelli í 4,2 m.kr., eða úr 325 þúsund kr. á mánuði í 351 þúsund kr. á mánuði. Það þýðir að fyrir einstætt foreldri sem hefur allar sínar tekjur af launavinnu og greiðir 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 365.040 kr. í mánaðarlaun.

Hjá sambúðaraðilum munu neðri skerðingarmörkin hækka úr 7,8 m.kr. á ársgrundvelli í 8,4 m.kr., eða úr 650 þúsund kr. á mánuði í 702 þúsund kr. Það þýðir að fyrir sambúðaraðila sem hafa allar sínar tekjur af launavinnu og greiða 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 730.080 kr. í samanlögð mánaðarlaun.

Efri skerðingarmörk haldast óbreytt við 5,5 m.kr. hjá einstæðum foreldrum og 11,0 m.kr. hjá sambúðarfólki. Í eftirfarandi töflu eru tekin dæmi af fjölskyldum með misháar tekjur og áhrifum barnabótabreytinga á ráðstöfunartekjur þeirra.

Barnabætur með tveimur börnum,
öðru yngra en 7 ára
20202021Breyting
kr.kr.kr.%
Einstætt foreldri með 4,2 m.kr. í skattstofn á ári901.500931.50030.0003,3%
Einstætt foreldri með 5,5 m.kr. í skattstofn á ári771.500802.70031.2004,0%
Einstætt foreldri með 9 m.kr. í árstekjur433.000451.72018.7204,3%
Hjón með 8,4 m.kr. í skattstofn á ári593.700653.70060.00010,1%
Hjón með 9 m.kr. í árstekjur533.700596.10062.40011,7%
Hjón með 12 m.kr. í árstekjur246.700284.14037.44015,2%

Tryggingagjald

Í ársbyrjun 2021 mun skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækka um 0,25 prósentustig, úr 4,9% í 4,65%. Er sú aðgerð tímabundin í eitt ár og hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa kórónaveirunnar.

Tryggingagjald í heild lækkar úr 6,35% í 6,10%, sbr. meðfylgjandi töflu.

Tryggingagjald20202021
Almennt tryggingagjald4,90%4,65%
Atvinnutryggingagjald1,35%1,35%
Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota0,05%0,05%
Markaðsgjald0,05%0,05%
Tryggingagjald, samtals6,35%6,10%

Fjármagnstekjuskattur

Þrenns konar breytingar á fjármagnstekjuskatti einstaklinga taka gildi í byrjun árs 2021. Frítekjumark er tvöfaldað og verða því fjármagnstekjur allt að 300 þús.kr. skattfrjálsar árið 2021, í stað 150 þús.kr. árið áður. Auk þess er sú breyting gerð að frítekjumarkið nær nú einnig til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Þá er brugðist við misræmi í skattlagningu söluhagnaðar húsnæðis í eigu einstaklinga með því að fella söluhagnað af frístundahúsnæði til eigin nota undir sömu reglur og gilda um íbúðarhúsnæði en þó með kröfu um 7 ára lágmarks eignarhaldstíma.

Fjármagnstekjuskattur20202021
Skatthlutfall22%22%
Frítekjumark einstaklinga150.000300.000

Erfðafjárskattur

Skattfrelsismark erfðafjárskatts hækkar úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. í ársbyrjun 2021 og mun framvegis taka árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Skatthlutfallið helst óbreytt frá fyrra ári.

Erfðafjárskattur20202021
Skatthlutfall10%10%
Skattfrelsismark1,5 m.kr.5 m.kr.

Framlenging heimilda til frestunar staðgreiðslu opinberra gjalda

Launagreiðendur geta sótt um frestun á allt að tveimur greiðslum vegna afdreginnar staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds af launum á árinu 2021. Nýr gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna verður 15. janúar 2022.

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl.

Krónutölugjöld lækka að raungildi um næstu áramót en þau munu einungis hækka um 2,5% sem er minna en nemur verðbólgu frá síðustu verðlagsuppfærslu. Breytingar á helstu krónutölugjöldum milli áranna 2020 og 2021 eru sýndar í meðfylgjandi töflu.

Helstu krónutölugjöld20202021
Bensín- og olíugjöld (kr./ltr.)  
Almennt vörugjald á bensín28,7529,45
Sérstakt vörugjald á bensín46,3547,50
Olíugjald64,4066,00
Kolefnisgjald  
Gas- og dísilolía (kr./ltr.)11,4511,75
Bensín (kr./ltr.)10,0010,25
Brennsluolía (kr./kg)14,1014,45
Jarðolíugas (kr./kg)12,5512,85
Bifreiðagjald (kr.)*  
Grunngjald bifreið < 3.500 kg.6.225/1506.380/154
Grunngjald bifreið > 3.500 kg.58.325/2,49/91.80059.785/2,55/94.095
Kílómetragjald (kr./km.)  
Kílómetragjald(allir gjaldflokkar hækka um 2,5%)
Áfengisgjald (kr./cl.)  
Bjór125,65128,80
Léttvín114,45117,30
Sterkt vín154,90158,75
Tóbaksgjald  
Vindlingar (kr./pk.)515,95528,85
Neftóbak (kr./gr.)28,7029,40
Annað (kr./gr.)28,7029,40
*Sýnt er grunngjald á hvert ökutæki, einingagjald á hvert gr. umfram 121 gr. CO2og hámarksgrunngjald. Hér er miðað við skráða losun skv. evrópsku aksturslotunni.

Virðisaukaskattur

Um síðustu áramót tóku gildi fjölbreyttir skattastyrkir sem hvetja til notkunar á vistvænum samgöngum. Var ýmist um að ræða framlengingu og aukningu á eldri úrræðum eða nýjar tegundir stuðnings. Þar má nefna niðurfellingu VSK í heild eða að hluta fyrir vistvæna bíla, bifhjól, reiðhjól og hlaupahjól; endurgreiðslu VSK af hleðslustöðvum; og loks stuðning við rekstraraðila sem fjárfesta í vistvænum ökutækjum, í formi fullrar fyrningar á kaupári fyrir hreinorkubíla og niðurfellds VSK við kaup á hópferðabílum og af útleigu bílaleigubíla. Þessir skattastyrkir gilda almennt út árið 2023 en þó aðeins út árið 2022 fyrir tengiltvinnbíla. Sjá má yfirlit um þessa skattastyrki í frétt hér á vefnum 30. desember 2019.

Í tilviki tengiltvinnbíla er framangreindur skattastyrkur felldur niður í skrefum á næstu árum. Sú breyting var þó gerð nú í desember að hámarks ívilnun á árinu 2021 verður óbreytt, 960 þús.kr., í stað þess að lækka í 600 þús.kr. eins og áður hafði verið lögfest. Um leið var gerð sú breyting á skilyrðum ívilnunarinnar að hámark heimilaðrar skráðrar losunar var lækkað um 10 gr.

Auknar endurgreiðslur VSK vegna kórónuveirufaraldursins munu gilda út árið 2021 samkvæmt ákvörðun Alþingis fyrir jól. Þær felast annars vegar í hækkuðu endurgreiðsluhlutfalli vegna vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% í 100% og hins vegar í útvíkkun til ýmissa tegunda starfsemi og framkvæmda sem allajafna njóta ekki endurgreiðslu VSK (sjá töflu).

Tegund framkvæmdaEndurgreiðsla VSK af vinnulið 2021
Íbúðarhúsnæði: nýbyggingar og viðhald 100% endurgreiðsla (hækkun úr 60%)
Íbúðarhúsnæði: hönnun og eftirlit 100% endurgreiðsla
Íbúðarhúsnæði: frístundahúsnæði 100% endurgreiðsla
Heimilishjálp og regluleg umhirða heimila  100% endurgreiðsla
Bifreiðaviðgerðir einstaklinga 100% endurgreiðsla
Annað húsnæði sveitarfélaga 100% endurgreiðsla
Húsnæði almannaheillafélaga 100% endurgreiðsla

Skoða á vef Stjórnarráðsins