Nýr upplýsingavefur Fjallabyggðar www.fagnar.is

Fjallabyggð, sameinað samfélag Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, hefur brugðið á það ráð að fela sérstökum flutningsfulltrúa að einfalda fólki búferlaflutninga til staðarins. Í stað þess að þurfa að leita til margra aðila getur fólk nú beint öllum fyrirspurnum til flutningsfulltrúans sem ýmist svarar um hæl eða leitar svara og hefur samband til baka.

„Við höfum fundið fyrir því að ein hindrun fólks við flutninga almennt er aðgangur að praktískum upplýsingum. Fyrir þann sem ekki þekkir til getur verið dálítið yfirþyrmandi að spyrjast fyrir um hvaðeina sem skiptir máli, skólamálin, mögulega atvinnu, húsnæði, tómstundir, samgöngur, möguleika til nýsköpunar og allt það sem fylgir því að flytja sjálfan sig, fjölskylduna og jafnvel eigin rekstur um set. Við viljum einfalda málin og gefa fólki beinan aðgang að einni manneskju sem ekki aðeins getur svarað spurningum heldur beinlínis aðstoðað við hlutina,“ segir Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar.

Flutningsfulltrúi Fjallabyggðar verður Linda Lea Bogadóttir sem einnig þjónar stöðu markaðs- og menningarfulltrúa í sveitarfélaginu. Linda er öllum hnútum kunnug og þekkir Fjallabyggð út og inn.

„Við sáum það í hendi okkar að þetta góða fólk sem vill koma hingað hefði ekki sömu innsýn í samfélagið og við sem hér búum — og eðlilega. Mitt hlutverk er að gefa hrein og skýr svör, svör við þessum einföldu hlutum sem erfitt er að nálgast ef þú þekkir ekki því betur til á staðnum,“ Segir Linda Lea. „Þegar fólk svo tekur skrefið og ákveður að flytja til Fjallabyggðar heldur mitt hlutverk áfram, ég beini fólki á rétta staði, bendi á bestu möguleika í stöðunni fyrir fólk varðandi húsnæði og annað slíkt, upplýsi bæjarbúa um komu þessa fólks og velti upp hvernig kraftar þeirra geti nýst sem best.“

Stjórnvöld sveitarfélagsins trúa því að þetta fyrirkomulag verði öllum til tekna. Þannig reynist auðveldara fyrir fólk að flytjast til Fjallabyggðar, og þar með haldi byggðarlagið áfram að stækka og dafna. Nýtt fólk með ný sjónarmið, sína styrkleika og hugmyndir geri ekkert annað en að styrkja samfélagið. Í Fjallabyggð eru ótal tækifæri, iðnaðar- og íbúðarhúsnæði, mikill áhugi á nýsköpun, fjölbreytni og samvinnu, öflugur framhaldsskóli og gildi fjölskyldunnar í hávegum höfð.

Allar upplýsingar má finna á fagnar.is, nýjum upplýsingavef Fjallabyggðar.

„Fjallabyggð fagnar þér,“ segir Linda Lea að lokum.