Matvælastofnun stöðvaði í síðustu viku starfsemi matvælafyrirtækis á Norðurlandi eystra, Hrísey Seafood tímabundið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.
Þann 5. júlí síðastliðinn stöðvaði Matvælastofnun starfsemi matvælafyrirtækis á Norðurlandi eystra. Við eftirlit komu í ljós mörg alvarleg frávik sem fólu í sér brot á matvælalögum og reglugerðum byggðum á þeim sem settar eru til að tryggja öryggi og heilsu neytenda.
Stofnunin gerir kröfur um umfangsmiklar úrbætur og verður starfsemin ekki leyfð að nýju fyrr en orðið hefur við þeim. Jafnframt hefur fyrirtækið verið fellt úr frammistöðuflokki B niður í frammistöðuflokk C sem felur í sér strangara eftirlit þegar starfsemin hefst að nýju.