Hrafn Jökulsson vígður – HÁTÍÐ VERALDARVINA Á SIGLUFIRÐI – Róbert Guðfinnsson hjálpaði Veraldarvinum að eignast Hrafn Jökulsson
Veraldarvinir slá upp veglegri hátíð á Siglufirði í dag, laugardaginn 13. júlí. Við það tilefni verður nýr strandhreinsbátur Veraldarvina vígður við
hátíðlega athöfn. Báturinn hefur verið skírður í höfuðið á rithöfundinum og baráttumanninum Hrafni Jökulssyni sem lést í september árið 2022.
Báturinn gegndi áður hlutverki dráttarbáts en athafnarmaðurinn Róbert Guðfinnsson gerði Veraldarvinum kleift að eignast hið glæsilega fley. Elísabet Jökulsdóttir, systir Hrafns vígir bátinn.
Búist er við fjölda gesta og sjálfboðaliða frá fjórtán þjóðlöndum sem lagt hafa Veraldarvinum lið við Strandhreinsun. Einnig verða veitingar í boði og yngstu gestum hátíðarinnar stendur til boða að föndra og mála báta og nýta m.a. ýmislegt sem rekið hefur á fjörur landsins í listaverk sín.
Elísabet mun við víxluna frumflytja ljóð eftir Bubba Morthens en ljóðið samdi Bubbi sérstaklega í tilefni hátíðarinnar.
Þá verður einnig frumflutt sjóferðabæn eftir listamanninn Snorra Ásmundsson. Snorri segir í bæninni: „Megi Póseidon, Hilarion, Njörður
og landvættir Íslands fylgja Hrafni Jökulssyni í sjóferðum sínum megi fylgja honum gæfa og guðslukka, mikið starf í þágu strandhreinsun
og megi hann vera farsæll og alltaf koma heill í höfn.“
Elísabet segir í ræðu sinni sem flutt verður í dag að Hrafn hafi verið hamhleypa til verka og fengist við ótal margt áður en hann tók að sér að
hreinsa fjörur.
„Við lok ævi sinnar gekk hann ötullega fram í strandhreinsun […] Þótt hann væri aðframkominn síðustu ár sín brann eldur úr augum hans.“
Það var vorið 2020 sem Hrafn ákvað að venda sínu kvæði í kross eftir áralanga þjónustu við skákgyðjuna og ganga til liðs við Verldarvini.
Veraldarvinir eru sjálfboðasamtök sem setja umhverfismál í öndvegi. Hrafn sagði í viðtali um þennan viðsnúning í lífi sínu:
„13. maí settist ég niður á gamlan drumb í fjörukambinum, leit yfir víkina og sagði: Kolgrafarvík mín. Næstu fjögur ár skal ég nota til þess
að endurheimta minn ævintýraheim, hreinsa þína strönd og grund, og allar aðrar fjörur meðan mér endist þróttur. Þegar ég fæ ungt fólk úr öllum heimshlutum sem kemur hingað að vinna í sjálfboðavinnu að hreinsa strandlengjuna okkar og náttúruna þá fyllist ég bjartsýni. Að vera
úti í náttúrunni daginn út og inn, klukkustundum saman og hlusta á sjóinn og fuglana og þögnina, það er held ég á við alla heimsins
jógatíma og núvitundarnámskeið sem til eru.“
Það var þá sem Hrafn kynntist Þórarni Ívarssyni stofnanda Veraldarvina. Þórarinn hefur á rúmum tuttugu árum fengið til landsins allt að
tvöþúsund vaska sjálfboðaliða á ári hverju eða 22 þúsund í heildina og einbeita þeir sér að náttúruvernd. Gríðarlegt magn plasts og úrgangs af
ýmsum toga var fjarlægt fyrir tilstilli Hrafns og Veraldarvina.
Sterkir bakhjarlar með hjartað á réttum stað skipta samtök eins og Veraldarvini öllu máli og einn af liðsmönnum Veraldarvina er
athafnarmaðurinn Róbert Guðfinnsson. Róbert er frá Siglufirði og hefur fjárfest ríkulega í sínum gamla heimabæ og hjálpað til við að byggja þar upp blómlega starfsemi. Draumur veraldarvina um að eignast strandhreinsibát varð að veruleika fyrir tilstilli Róberts og ákvað
Þórarinn að nefna bátinn í höfuðið á Hrafni. Það má því segja að Hafn Jökulsson sé hvergi nærri hættur að láta til sín taka við að hreinsa fjörur
landsins þó hann sé allur.
Þórarinn Ívarsson segir um bátinn og nafngiftina:
„Þetta fallega fley mun gagnast okkur vel við hreinsun strandlengjunnar. Við höfum saknað vinar okkar Hrafns frá því að hann féll frá og ég er
viss um að andi hans mun fylgja bátnum hvert sem hann fer. „Róbert Guðfinnsson fær sérstakar þakkir fyrir hans framlag til þessa verkefnis.
Myndir og heimild/aðsent