Undanfarna daga hefur verið óvenjumikil sandþoka eða “Calima” á Kanaríeyjum. Svo mikil að gefin var út gul viðvörun. Heimildir segja að jafn mikil “Calima” hafi ekki sést á Kanarí í a.m.k. 20 ár.

Ástandið um helgina var sérlega slæmt og var hundruðum flugferða aflýst bæði á Gran Canaria og Tenerife og fólki ráðlagt að halda sig innandyra, loka dyrum og gluggum. Skólahald á Kanarí liggur víðast niðri í dag vegna þessa.

Þessi sandþoka – “Calima” – kemur frá Afríku, þá líklega mest frá Sahara eyðimörkinni, en landfræðilega eru Kanaríeyjar í Afríku, þótt þær séu undir stjórn Spánar.

Þessi rauðleita þoka, sem sést mest yfir vetrartímann, getur ferðast mörg þúsund kílómetra með vindum í jafnvel 5.000 metra hæð og þakið hundruð þúsunda ferkílómetra. Dæmi eru til þess að hún berist alla leið vestur til Karíbahafs.

Fréttaritarar Trölla, sem staddir eru einmitt á Gran Canari um þessar mundir, þurftu að fresta öllum sínum áformum um óákveðinn tíma, en fóru þess í stað – þrátt fyrir gula viðvörun – á stúfana og tóku þessar myndir, sem þrátt fyrir óþægilegt tilefni verða að teljast sérlega óvenjulegar og dulúðlegar.

Þess má geta að myndirnar voru teknar um miðjan dag, sunnudaginn 23. febrúar og eru óunnar.


Hér fyrir neðan eru tvær skýringarmyndir eða myndbönd sem fundust á netinu og sýna hvernig Calima berst frá Afríku yfir til Kanaríeyja.