Eins og fram kom í frétt á heimasíðunni Einingar-Iðju þá samþykkti yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Rafrænni kosningu lauk kl. 12:00 í dag og 83,93% þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn. „Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með afgerandi niðurstöðu. Það að tæp 84% þeirra sem kusu skyldu samþykkja samninginn segir okkur að það var rétt að skrifa undir þennan skammtímasamning,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju.
Um 1.500 félagsmenn
Björn bendir á að mjög margir félagsmenn hafi komið að undirbúningi kröfugerðar á sínum tíma, um 1.500 félagar með beinum eða óbeinum hætti, og skilaboðin þá hafi einmitt verið skýr; að samið yrði fljótt þannig að nýr samningur tæki við af þeim gamla en ekki þyrfti að bíða, svo og að launahækkarnir yrðu með þeim hætti að kaupmáttur ykist. “Það tókst. Það eru um 1.500 félagsmanns sem tóku þátt í kröfugerðinni, bæði með beinum og óbeinum hætti í gegnum trúnaðarmannakerfið okkar sem er eitt besta hjá stéttarfélögum á Íslandi. Það er ánægjulegt að sjá þessi viðbrögð og ekki síst að fólk fái hækkanirnar nú fyrir áramót. Það auðveldar þeim að takast á við þær hækkanir sem yfir okkur hafa dunið. Þess vegna er niðurstaðan í kosningunni jákvæð og ég verð að segja að það er líka jákvætt að sá áróður sem hafður var uppi skilaði ekki árangri; sumir lögðu mikið á sig til að reyna að fá samninginn felldan en sem betur fer tókst það ekki. Í mínum huga eiga menn að vinna vel fyrir sína félagsmenn og láta aðra í friði sem hafa kjark og þor til að láta verkin tala. Fjölmiðlaleikur skilar ekki árangri, heldur að sitja við og halda viðsemjendum við efnið“.
Nýr kjarasamningur samþykktur hjá 17 aðildarfélögum SGS
Niðurstaðan var raunar sú sama í öllum 17 félögum SGS sem voru að kjósa um samninginn. Samningurinn var alls staðar samþykkti með miklum yfirburðum. Þátttakan í atkvæðagreiðslunni var næst mest hjá Einingu-Iðju af félögunum 17, þó kusu ekki nema um fjórðungur félagsmanna.
„Það virðist vera að eftir því sem auðveldara er að greiða atkvæði því færri gera það. Mér finnst það skrýtið að nálægt 74% félagsmanna skuli ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni því það tekur ekki nema um það bil mínútu. Einn sagði mér á einum af fimm kynningarfundum félagsins í síðustu viku að það hefði tekið viðkomandi 22 sekúndur að kjósa,“ sagði Björn og bætti við að hann væri að sjálfsögðu mjög ánægður með niðurstöðuna, ” en best væri að sem allra flestir segðu skoðun skoðun sína, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð. Ég túlka þetta reyndar þannig að fólk hafi verið mjög sátt og talið öruggt hver niðurstaðan yrði, en samt er best að sem flestir taki alltaf þátt í atkvæðagreiðslum sem þessari,“ segir Björn,
Mynd/ Eining-Iðja