Norðurljós settu magnaðan svip á næturhimininn yfir Siglufirði í gærkvöldi þegar litrík ljósadýrð breiddist yfir bæinn. Víða um land urðu menn varir við óvenju skýr og kraftmikil norðurljós og aðstæður til ljósmyndunar voru með besta móti.
Tilefnið var öflugt kórónugos frá sólinni sem náði til jarðar með óvenjulegum hraða. Samkvæmt mælingum hefur slíkt gos ekki verið jafn hratt í um 23 ár og afleiðingarnar létu ekki á sér standa á himinhvolfinu. Ljósin tóku á sig fjölbreytta liti og mynduðu sterkar bylgjur sem voru vel sýnilegar með berum augum.
Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur sem margir þekkja undir nafninu Stjörnu-Sævar, vakti athygli á fyrirbærinu í færslu á Facebook. Þar sagði hann meðal annars að gosið væri bæði mjög hraðfleygt og afar orkuríkt.
„Nú þegar hefur róteindastormur mælst sögulega hár, á stigi S4, sá hæsti síðan í stormunum miklu í október og nóvember árið 2003. Það eitt og sér segir þó lítið um hversu mikil norðurljós verða, en gefur góða mynd af því hversu kröftugt gosið er,“
skrifaði hann.
Meðfylgjandi myndir voru teknar af Ingvari Erlingssyni ljósmyndara og sýna glæsilega stemningu yfir Siglufirði þetta kvöld. Myndirnar eru birtar hér með góðfúslegu leyfi hans og gefa skýra mynd af þeirri náttúrufegurð sem norðurljósin buðu upp á.








