Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja við Fjallabyggð um möguleika á sveigjanlegri dagdvöl og dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun og aðra sem þarfnast endurhæfingar.
Vegna stærðar, staðsetningar, traustra og fölbreyttra innviða og lýðfræðilegrar samsetningar hentar Fjallabyggð vel til þess að verða frumkvöðull í þróun þjónustu við eldra fólk. Sú þjónusta þarf sannarlega að taka breytingum á komandi árum vegna fjölgunar aldraðra, breytinga á heilsufari hópsins og annarra ástæðna sem m.a. eru raktar í drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.
Hugmyndir Fjallabyggðar lúta að því að finna núverandi fjármunum nýja farvegi með það að markmiði að nýta þá betur og um leið gera þjónustuna markvissari svo hún gagnist eldra fólki betur og mæti ólíkum þörfum þeirra. Staða og heilsa fólks er misjöfn og því er nauðsynlegt að byggja upp sveigjanlegt kerfi sem sniðið er að þörfum notenda þess.
Fjallabyggð hefur lagt fram tillögur að fjölbreyttum verkefnum sem verða skoðaðar nánar en eitt af verkefnunum er að sveitarfélagið hafi möguleika á að bjóða upp á sveigjanlega dagdvöl og munu Sjúkratryggingar Íslands semja um það við sveitarfélagið.