Í gær var tilkynnt að Menntaskólinn á Tröllaskaga væri tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna í flokki framúrskarandi skólastarfs eða menntaumbóta.
Verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Þessir fimm skólar eru tilnefndir.
Dalskóli fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.
Leikskólinn Rauðhóll fyrir framúrskarandi og fjölbreytt þróunarstarf og nýsköpun, faglegan metnað, starfsþróun og lýðræðislega starfshætti.
Menntaskólinn á Tröllaskaga fyrir nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði.
Pólski skólinn – Szkoła Polska w Reykjaviku fyrir mikilvægan stuðning við tvítyngda nemendur og þróun fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi, sem og fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir og öfluga starfsþróun.
Tónskóli Sigursveins fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.
Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður í Ólafsfirði árið 2010. Fyrsta haustið voru nemendur um 70 en eru nú alls 450. Einkunnarorð skólans eru frumkvæði – sköpun – áræði sem tvinnast inn í allt skólastarf, nám, kennslu, starfshætti og menntunarfræði..
Skólinn hefur fjórum sinnum hlotið viðurkenninguna „Stofnun ársins“ í flokki meðalstórra ríkisstofnana í könnun sem mælir starfsánægju starfsmanna. Auk þess útnefndi Kennarasamband Íslands skólameistara stofnunarinnar, Láru Stefánsdóttur, sem skólameistara ársins 2018.
Í skólanum hefur verið þróuð aðferðafræði sem kölluð hefur verið „Tröllaskagamódelið“. Starfsmenn og nemendur hafa ekki aðeins kynnt hana á Íslandi, heldur líka víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Líkanið byggir á einkunnarorðum skólans, samþætting stað- og fjarnáms er lögð til grundvallar og byggt á öflugri notkun upplýsingatækni og skipulagi sem starfsmenn hafa þróað í sameiningu. Einkum er stuðst við eftirfarandi aðferðir; aðferðafræði fjarnáms, samstarfsnám á neti, vendikennslu, verkefnabundið nám með fjölbreyttum verkefnaskilum, leiðsagnarmat án lokaprófa, grunnþáttum menntunar og fjölgreindarkenningu Gardners. Áhersla er á fjölbreytt verkefnaskil.
Starfsfólk skólans hefur verið virkt í þátttöku í innlendum sem erlendum verkefnum frá upphafi og hlotið styrki frá Sprotasjóði, Nordplus og Erasmus. Frá árinu 2015 hafa allir kennarar átt kost á að sækja ráðstefnur og námskeið í Evrópu að minnsta kosti einu sinni á ári. Skólinn hefur einnig haldið Evrópuráðstefnu í skólanum er kallaðist GERE – Global Education in Rural Environment þar sem kennarar miðluðu þekkingu sinni og reynslu. Skólinn vann verkefni fyrir menntamálaráðuneyti Grænlands sem fólst í ráðgjöf varðandi fjarnám og kennslu á Grænlandi.
Mikil áhersla er á fjölbreytni og að þróa og bæta námið. Þess vegna er að jafnaði boðið upp á fjölda nýrra áfanga á hverju skólaári. Námið er gjarnan tengt nærsamfélaginu og erlendu samstarfi. Umhverfismál hafa einnig verið í brennidepli og hefur skólinn lokið þremur grænum skrefum í ríkisrekstri, hafið þátttöku í verkefninu Grænfáninn, auk fjölmargra erlendra verkefna sem fjalla um umhverfismál. Skólinn tekur þátt í tilraunaverkefni um stafræna stoðþjónustu og hefur boðið upp á áfanga í geðrækt og sálrænni skyndihjálp.
Heimild/Skólaþróun.is
Mynd/MTR