Í gærkvöldi var haldið skemmtilegt og vel heppnað bókmenntakvöld á Hótel Siglunesi, þar sem rithöfundarnir Sæunn Gísladóttir, Joachim B. Schmidt og Ester Hilmarsdóttir kynntu bækur sínar og lásu valda kafla fyrir gesti. Trölli.is var á staðnum og var stemningin einstaklega góð frá upphafi til enda.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík hóf kvöldið með ávarpi, kynnti rithöfundana og fór yfir bakgrunn þeirra á skýran og fróðlegan hátt. Það skapaði góðan grunn fyrir upplesturinn sem á eftir fylgdi.
Fyrst steig Sæunn Gísladóttir á svið og las upp úr skáldsögunni Kúnstpása, þar sem líf og örlög tveggja ungra kvenna á ólíkum tímum fléttast saman á áhrifaríkan hátt. Sæunn hefur starfað bæði í fjölmiðlum og við þýðingar og kviknaði hugmyndin að sögunni eftir að hún flutti ásamt Agli, manni sínum, og þriggja mánaða barni til Siglufjarðar í leit að nýjum ævintýrum, án tengsla við bæinn. Áður hafði hún búið víða, meðal annars í Bretlandi, Frakklandi og Danmörku og einnig um skemmri tíma í Rússlandi og Gana.
Næstur var Joachim B. Schmidt, sem las upp úr nýjustu bók sinni Ósmann. Bókin er byggð á ævi Jóns Magnússonar, ferjumanns í Skagafirði, og dregur upp lifandi mynd af lífi og örlögum manns á jaðri samfélagsins. Joachim er fæddur í Sviss árið 1981, ólst upp á bóndabæ í Ölpunum og hefur búið á Íslandi frá árinu 2007. Hann hefur verið rithöfundur í fullu starfi frá árinu 2020.
Að lokum las Ester Hilmarsdóttir upp úr skáldsögunni Sjáandi, þar sem ástin og tengsl mannsins við náttúruna eru í forgrunni á tímum sveitarsíma og förukvenna. Ester er fædd í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1985 og hefur víðtækan bakgrunn í ritstörfum, ritstjórn og textavinnu bæði hérlendis og erlendis. Fyrsta bók hennar, Fegurðin í flæðinu, kom út árið 2023 og hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2024.
- Sæunn Gísladóttir, Joachim B. Schmidt og Ester Hilmarsdóttir
Eftir upplestur og spjall tók við kvöldverður að hætti marokkóska meistarakokksins Jaouad Hbib. Um var að ræða sannkallaða matarveislu þar sem bragð, litir og ilmur nutu sín til fulls og látum við myndirnar tala sínu máli.

Meistarakokkurinn Jaouad Hbib og Hálfdán Sveinsson, eigandi Hótel Siglunes, tóku á móti gestum og vakti kvöldverðurinn mikla lukku.
Forréttir
Aðalréttur
Eftirréttir
Myndir: Smári


















