Drög að reglugerð um birtingu upplýsinga í gagnagrunni almennra fjarskiptaneta (GAF) hafa verið birt í Samráðsgátt. Í gagnagrunninn eru skráðar upplýsingar um staðsetningu og tæknilega eiginleika almennra fjarskiptaneta, en markmiðið með birtingu upplýsinga úr gagnagrunninum er að veita upplýsingar til almennings, stjórnsýslu og annarra hagaðila um fjarskiptaþjónustu sem er í boði eða væntanleg, sem og gæði hennar og öryggi. Reglugerðinni er ætlað að setja ramma utan um birtingu upplýsinga úr gagnagrunninum, en í drögunum er meðal annars kveðið á um hvaða upplýsingar skuli birta og hvernig skuli birta þær. Upplýsingarnar verða veittar myndrænt á þann hátt að hægt verði að þysja sjónarhorn niður á tiltekin staðföng og nálgast upplýsingar um tegundir tenginga, s.s. hvort ljósleiðaratenging sé í boði á staðfanginu.

„Fyrirliggjandi er góð tölfræði um stöðu fjarskipta á Íslandi. Sú tölfræði nýtist m.a. við samanburð við aðrar þjóðir þar sem Ísland kemur iðulega mjög vel út á flestum sviðum. En mynd segir meira en þúsund orð. Bráðlega verður opnað fyrir myndrænan aðgang að stöðu fjarskipta á Íslandi þar sem sjónarhornið getur verið allt landið, einstaka bygging og allt þar á milli. Slík myndræn framsetning er að mínu mati nauðsynlegur grundvöllur fyrir samtal um þá uppbyggingu fram undan sem er nauðsynleg til að Ísland verði gígabitaland“, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Umsagnarfrestur er til 20. október nk. og ráðuneytið hvetur öll til að kynna sér reglugerðardrögin og senda inn umsögn eða ábendingu í gegnum Samráðsgáttina eftir því sem við á.

Mynd/Dæmi um myndbirtingu í gagnagrunni almennra fjarskiptaneta (GAF).