Undurrituð fór á heimsfrumsýningu á Bjargráð hjá Leikfélagi Fjallabyggðar. Áhorfendur streymdu inn í salinn og finna mátti fyrir spennu og tilhlökkun meðal gesta, spennustigið og tilhlökkun hefur þá líklega verið ansi hátt bakvið tjöldin þar sem stór leikhópur beið eftir að sýna uppskeru vinnu sem hópurinn hefur unnið hörðum höndum að síðustu vikurnar.
Leikritið er gamanleikur með söngvum eftir Guðmund Ólafsson sem leikstýrir einnig verkinu. Hann leysir bæði hlutverkin með stakri prýði.
Oft er talað um í áhugamannafélögum að þau ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, það er alltaf áskorun að frumflytja verk, sýningin er mannmörg en alls eru leikarar 24 á sviði og svo bætist við hljómsveit sem skipa 6 manns.
Sýningin er í lengra lagi en heldur áhorfendum samt allan tímann í flottri og skemmtilegri sýningu.
Um leið og ljós slokknuðu í salnum byrjaði tónlist á góðum krafti og fangaði athygli gesta strax þó ekki væri búið að draga frá. Hljómsveitin Ástarpungarnir flytja Abba lögin snilldar vel og einnig eru nýir textar í lögunum sérstaklega skemmtilegir hjá Guðmundi Ólafs.
Sýningin hófst og fjallar í stuttu máli um bæjarstjórn sem vinnur að því að bjarga fjárhag bæjarins sem er í tómu tjóni og auðvitað finnst örgum bæjarbúum það allt bæjarstjórninni að kenna, leitað er lausna til að bjarga málunum og svo er bara spurningin nær bæjarstjórnin að bjarga málunum? Því verður ekki svarað hér lesandi góður því til að fá svarið við þeirri spurningu þarftu einfaldlega að panta þér miða og drífa þig á sýninguna hjá LF.
Leikarar stóðu sig öll mjög vel í leik og söng og erfitt að fara pikka út einn og einn. Langar þó að nefna flotta frammistöðu hjá yngsta leikara hópsins Reynir Loga. Þá má einnig hrósa bæjarstjórninni fyrir flottan leik því mikil viðvera á sviði eins og er í þessu verki sérstaklega hjá bæjarstjóranum er alls ekki á færi allra að halda karakter og flottum leik allan tíma.
Sérstaklega var mikil leikgleði í lögunum enda Abba lögin skemmtileg. Aldurbil leikarahópsins er ansi breitt en 71 ár eru á milli yngsta og elsta. Fyrir áhugafélög er það mjög dýrmætt að hafa góðan og fjölbreyttan hóp innan sviðs sem utan. Fundarsenur milli bæstjórnar og bæjarbúa fyrir hlé eru vel leiknar.
Sundlauga atriðið sem er fyrsta atriði eftir hlé er sérstaklega skemmtilega útfært og leikið, allar innkomur ellismellanna vöktu mikla kátínu í salnum enda mjög skemmtilegar.
Leikmynd er flott, alls ekki flókin en þær fáu skiptingar sem voru gengu smurt og vel fyrir sig. Búningar, ljós og hljóð voru einnig í góðu lagi. Það sem er skemmtilegt við sýningar sem þessa sem gerast í litlu samfélagi að við tengjum alltaf eitthvað við okkar samfélag, það eru alltaf þessar skrýtnu skrúfur í hverjum bæ sem veita okkur svo mikla gleði.
Heyra mátti bæði í hléi og eftir sýningu að áhorfendur voru hrifnir og ánægðir með sýninguna enda virkilega flott sýning. Innilegar hamingjuóskir þið öll sem komuð að þessari flottu sýningu sem einum eða öðrum hætti. Mæli með leikhúsferð á Bjargráð.
Takk fyrir mig
Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir formaður LS