Jarðvinna er mikilvægur verkþáttur í byggingaframkvæmdum og mannvirkjagerð af öllu tagi, enda rís engin bygging nema grunnur hennar sé lagður fyrst. Unnið hefur verið að skipulagningu nýrrar námsleiðar í jarðvinnu í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Félag vinnuvélaeigenda og Tækniskólann.
Nám í jarðvirkjun mun hefjast hjá Tækniskólanum næsta haust og verður það ætlað bæði nýnemum á framhaldsskólastigi sem og þeim sem þegar starfa í greininni. Námið mun undir búa einstaklinga undir fjölbreytt störf sem felast í jarðvegsvinnu, s.s. efnisflutningar, frágangsvinna og grunnvinna við byggingarlóðir. Skortur hefur verið á nýliðun starfsfólks í því fagi hérlendis og með auknum kröfum um öryggi og gæði, styttri framkvæmdatíma, minna rask, þéttingu byggðar og tækniþróun eykst þörfin sífellt fyrir vel menntað starfsfólk á því sviði.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Ég fagna því að nemendur geti brátt sótt sér aukna þekkingu á þessu mikilvæga starfssviði. Við viljum skapa tækifæri fyrir fólk á öllum aldri til þess að efla færni sína og sérhæfingu, og mæta þörfum samfélagsins hverju sinni.“
Námið mun veita innsýn í verkferla og tækni í starfsgreininni. Það mun fela í sér hagnýt verkefni, bæði bókleg og verkleg, sem eru að miklu leyti einstaklingsmiðuð. Kennt verður á nýjar vélar sem búnar eru nýjustu tækni. Nánari upplýsingar um námið verður að finna á vef Tækniskólans.
Skoða á vef Stjórnarráðsins
Mynd: Tækniskólinn