Sjö nemendur ásamt tveimur kennurum eru nú í námsferð í Kalamata í Grikklandi. Þar taka þau þátt í verkefni sem nefnist „Þú hefur líka rödd“ en markmið þess er að þjálfa nemendur í virkri þátttöku í samfélaginu og kenna þeim að axla ábyrgð í lýðræðisþjóðfélagi. Auk Íslendinga og Grikkja taka nemendur frá Tékklandi og Lettlandi þátt í verkefninu.
Í gær fengu þau fræðslu um frelsi einstaklingsins á mismunandi tímum til að tjá skoðanir sínar. Táningarfrelsi og prentfrelsi hefur ekki allstaðar verið í hávegum haft og þau fræddust um bókabrennur og skoðanakúgun af ýmsu tagi. Það er mikilvægt fyrir þau að vera meðvituð um þessi mál því það mun hvíla á herðum þessarar kynslóðar að þróa lýðræði og menningu í evrópskum samfélögum til framtíðar.
Ferðalagið til Kalamata var langt og strangt með millilendingu og gistingu í Katowice í Póllandi og langri rútuferð frá Aþenu til Kalamata sem er á Pelópsskaga Grikklands. Námsferðin gengur hnökralítið að sögn Karólínu Baldvinsdóttur kennara og segir hún að það hafi komið okkar nemendum á óvart hvað þau hafa það í raun gott.
Það á ekki síst við um ýmsan aðbúnað og tækni í skólanum ytra en einnig kynnast þau grísku heimilislífi því nemendur gista heima hjá grísku nemendunum. Þannig fá þau gott tækifæri til að kynnast grískri menningu af eigin raun og það er dýrmæt reynsla sem á eftir að gagn.
Forsíðumyndin sýnir Íslenska hópinn sem er Sterkur og samheldinn nemendahópur að sögn Kolbrúnar Halldórsdóttur kennara og mjög einkennandi væntumþykja og vináttukærleikur í íslenska hópnum.
Ljósmynd: K.B.