Í kjölfar frétta, ábendinga og fyrirspurna um að ferðaskrifstofur telji sig ekki þurfa að endurgreiða ferðir sem þær fara í þrátt fyrir tilmæli landlæknis og útgöngubann á dvalarstað, vilja Neytendasamtökin taka eftirfarandi fram.
Víst er að aðstæður eru eindæma og starfsfólk samtakanna veit ekki til þess að reynt hafi á þetta fyrr, en Neytendasamtökin telja rétt neytenda afar ríkan samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Samtökin telja ljóst að uppi séu afar óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar.
En í slíkum tilvikum getur ferðalangur afpantað ferð og fengið endurgreitt að fullu innan 14 daga, án þess að ferðaskrifstofu sé heimilt að halda eftir þóknun, eða staðfestingargjaldi, sbr.15.grein laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Í skýringum með lögunum segir meðal annars að óvenjulega og óviðráðanlegar aðstæður geti t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma ofl.
Rétt er að benda ferðalöngum á að afpanta ferðir sínar skriflega (með tölvupósti), taka fram ástæðu afpöntunarinnar og fara fram á endurgreiðslu innan 14 daga, lögum samkvæmt.
Nánar má lesa um þetta hér: Í frétt Neytendastofu frá 6.mars sl., frétt Ferðamálastofu frá 14.mars sl. og Lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Hér eru svæði sem landlæknir skilgreinir með smitáhættu.
Flugferðir
Um réttindi flugfarþega gildir að ef flugfélag aflýsir flugi vegna ástandsins, á farþegi rétt á fullri endurgreiðslu farmiða, en þó ekki skaðabótum.
Hætti farþegi við flug á eigin forsendum, myndast ekki bótaréttur og ekki réttur á endurgreiðslu farmiða fyrir utan skatta og gjöld. Þá þarf að leita í greiðslukorta- eða heimilistryggingar. Flestar „betri“ tryggingar og kortaskilmálar innihalda klausu sem er eitthvað á borð við að sé komið í veg fyrir ferð vegna hafta sem yfirvöld setja er tjón farþega bætt. Á vefsetrum tryggingafyrirtækja má víðast hvar finna ágætis upplýsingar um kórónutengd mál sem kunna að koma upp og tengjast tryggingum.