Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að Covid-19 veiran hefur gjörbreytt öllu lífi almennings og raunar allri þeirri heimsmynd sem við þekkjum.

Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Þau una hag sínum vel þar, fjarri allri mannabyggð í stórfenglegri náttúru og gjörólíku lífsmunstri en þau búa við á Íslandi.

Þegar þau flugu út til Kanarí í byrjun febrúar var farið að ræða um þessa ógn sem heimsbyggðin býr við um þessar mundir, en menn óraði ekki fyrir þeirri þróun sem verið hefur að undanförnu.

Barranco de la Angostura. Landið sem þau Kristín og Gunnar eiga er í þremur hlutum. Hér má sjá einn hlutann og hefur verið vel merkt, zona privado. Steinninn sem það stendur er um um 3 metrar á hæð.

Nú er svo komið að þau eru í útgöngubanni sem er í gildi á Spáni. Mega þau ekki vera á ferðinni nema til að versla inn mat og þess háttar, og fara til læknis ef þörf er á. Ekki mega þau fara bæði að versla heldur má bara vera ein persóna á ferðinni, hvort sem farið er fótgangandi eða á bíl. Verða heima- og ferðamenn að halda sig inni á heimilum og hótelum, ekki má fara á ströndina né í sundlaugar.

Lögreglan fylgir útgöngubanninu eftir með alvæpni, háar sektir og jafnvel fangelsisdómur eru viðurlögin ef ekki er farið að lögum.

Það er ljóst að nú verður hver og einn að vera sjálfum sér nógur og finna sér eitthvað til dægrastyttingar.

Kristín og Gunnar eru vel í stakk búin til að lifa við þessa einangrun, þar sem þau eru fjarri mannabyggðum, í fjalllendi þar sem einungis velbúnir 4X4 jeppar komast og engra manna er von.

Gunnar er búinn að ná í timbur í 20 fm. vinnustofu sem hann ætlar að byggja á næstu dögum. Hann er búinn að steypa niður uppistöður og nú verður hafist handa.

Fyrsti dagur í útgöngubanni hefur gengið vel fyrir sig hjá þeim hellisbúum. Kristín hefur notað daginn til að fara í sína venjubundnu gönguferð í gljúfrinu, fylgst grannt með fréttum og verið í sambandi við fólk á netinu. Gunnar sat við forritun, smíðaði ljós, útbjó brynningargræjur fyrir kettina á heimilinu og sendi út útvarpsþáttinn Tíu dropa sem þau hjónin eru með alla sunnudaga.

Þar sem gefið hefur verið út að útgöngubannið gildi í tvær vikur er hætt við því að dagarnir verði lengi að líða án þess að fara til byggða.

Þau hjónin eru ákveðin í því að láta þetta ganga upp og verður settur inn pistill daglega á Trölli.is, þar segja þau frá því hvernig gengur að lifa við þetta ástand, enda ætla þau að dvelja áfram á Gran Canaria þrátt fyrir COVID-19..