Demantshringurinn, ný 250 kílómetra ferðamannaleið sem tengir saman fjölda áfangastaða á Norðurlandi, var opnaður með formlegum hætti í gær.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnuðu leiðina með því að klippa á borða sem strengdur var yfir nýjan Dettifossveg milli Dettifoss og Vesturdals við Jökulsárgljúfur.

Þórdís Kolbrún, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi

Með þessari opnun er hægt að keyra milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatnssveitar, Dettifoss og Ásbyrgis á bundnu slitlagi en kallað hefur verið eftir þessari samgöngubót í áraraðir. Gamli vegurinn milli Dettifoss og Ásbyrgis var torfarinn og ófær stóran hluta ársins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var ánægð með daginn: „Demantshringurinn gerir okkur kleift að heimsækja fjöldamargar náttúruperlur á einum degi og mun opna norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum. Það var stórkostlegt að heimsækja Dettifoss í dag en þessi samgöngubót mun verða til þess að fleiri munu heimsækja hann og aðra stórkostlega staði i þessum landshluta.“

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings ávarpar gestina

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, tók í sama streng: „Opnun Demantshringsins er stór áfangi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Á óvissutímum í ferðaþjónustu er mikilvægt að huga að uppbyggingu til framtíðar. Ferðamannaleiðir á borð við þessa eru mjög góð nálgun til að vekja athygli á einstakri náttúru þessa svæðis. Allir sem hafa unnið lengi að verkefninu eiga hrós skilið og ég gleðst fyrir hönd þeirra ferðamanna sem munu í fyllingu tímans upplifa náttúruperlur og menningu svæðisins en hefðu mögulega annars farið á mis við þær.“



Myndir: Hilda Jana Gísladóttir
Kort: af netinu