Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way á ensku, var formlega opnuð þann 8. júní s.l. á Hvammstanga og Bakkafirði. Leiðin hefur verið í þróun í meira en þrjú ár og því afar ánægjulegt að þessum áfanga hafi verið náð. Sem kunnugt er hefur leiðin þegar vakið mikla athygli erlendis þrátt fyrir að hafa ekki verið formlega opnuð, sem sést best í því að Lonely Planet valdi leiðina sem þriðja besta áfangastað í Evrópu á þessu ári.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, klipptu á borða við afleggjarann inn á Hvammstanga og opnuðu þannig leiðina formlega. Það sama gerðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Árni Bragi Njálsson, fulltrúi sveitarstjórnar Langanesbyggðar við afleggjarann inn á Bakkafjörð.

Við opnunina voru ný skilti vígð, sem marka Norðurstrandarleið og segja ferðamönnum hvenær þeir ferðast eftir henni. Þessi skilti marka þáttaskil í íslenskri ferðaþjónustu, því í fyrsta sinn eru komin upp skilti með brúnum lit. Sá litur er þekktur erlendis fyrir skilti sem tengjast ferðaþjónustu.

Viðburðir voru eftir allri Norðurstrandarleið og má þar helst nefna hreinsanir á fjörum, yoga-hugleiðslu, gönguferðir og grillveislur.

Ný heimasíða hefur sömuleiðis verið sett í loftið, en á www.arcticcoastway.is má nú sjá allt það helsta sem hægt er að sjá og gera á leiðinni.

Nánari upplýsingar veitir Arnheiður Jóhannsdóttir í síma 864-6786.

Fréttatilkynning