“Á Ytri-Á” er nafn bókar sem Óskar Þór Halldórsson, fyrrv. blaða- og fréttamaður, hefur sent frá sér.

Ytri-Á vísar til Ytri-Gunnólfsár á Kleifum við vestanverðan Ólafsfjörð. Á Kleifum er húsaþyrping og þegar flest var á tuttugustu öld bjuggu þar hartnær hundrað manns sem lifði af landbúnaði, sjóróðrum og fiskverkun.

Þungamiðjan í þessari nýju bók er saga hjónanna Sigurbjörns Finns Björnssonar og Mundínu Þorláksdóttur á Ytri-Á á Kleifum og tuttugu barna þeirra sem þau eignuðust á 28 árum, frá 1917 til 1945. Sextán barnanna komust til fullorðinsára, fjögur dóu í æsku. Finnur og Mundína létust á níunda áratug síðustu aldar. Átta af sextán börnum þeirra sem komust til fullorðinsára eru á lífi. Eftirminnilegt er sjónvarpsviðtal sem Sigrún Stefánsdóttir, þáverandi fréttamaður á Ríkissjónvarpinu, átti við Finn og Mundínu árið 1980. Þá sagði tuttugu barna móðirin m.a. að hún hefði aldrei haft gaman af börnum!

Afkomendur Finns og Mundínu eru nú tæplega fjögur hundruð. Fjölskyldan bjó á neðri hæðinni á Ytri-Á en á efri hæðinni bjuggu Anton, bróðir Finns, og Guðrún Sigurjónsdóttir eiginkona hans. Þau eignuðust tíu börn.

“Á Ytri-Á” er yfirgripsmikil saga þar sem varpað er ljósi frá ýmsum hliðum – í gleði og sorg – á hið daglega líf stórfjölskyldunnar á Ytri-Á. Kleifarnar, Ólafsfjörður, Hvanndalir og Héðinsfjörður koma hér líka við sögu, óvænt flugferð Finns til Kaupmannahafnar og margt fleira. Þetta er saga fólksins við ysta haf og hvernig það nýtti landsins gæði til þess að framfleyta sér og sínum.

Á Ytri-Á er 516 blaðsíður. Útgefandi er Sýrdalsvogar slf. Í bókinni eru á sjötta hundrað ljósmyndir, sem flestar hafa ekki áður birst.

Aðsent.