Stofnvísitala þorsks hækkaði nær samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur. Fyrsta mæling á þorskárgangi 2022 bendir til að hann sé nálægt meðalstærð af fjölda 1 árs. Árgangar 2020 og 2021 mælast undir meðaltali en árgangur 2018 er nálægt meðaltali. Árgangar 2010-2017 og 2019 mælast nær allir yfir meðaltali. Meðalþyngd 2-5 ára þorsks mælist undir meðaltali en meðalþyngdir annarra aldurshópa eru um eða yfir meðaltali. Undanfarinn áratug hefur meðalþyngd þorsks 5 ára og yngri oftast verið undir meðaltali en meðalþyngd eldri þorsks hefur verið yfir meðaltali.
Ýsa
Stofnvísitala ýsu hefur farið hækkandi undanfarin ár og hækkaði mikið frá því í fyrra. Fyrsta mæling á ýsuárgangi 2022 bendir til að hann sé undir meðaltali af fjölda 1 árs. Árgangur 2018 mælist undir meðaltali meðan árgangar 2019-2021 og 2010-2017 (sem 6-13 ára) eru allir yfir meðaltali. Meðalþyngd 1-3 ára ýsu er undir meðallagi en meðalþyngd 4 ára og eldri ýsu er yfir meðallagi. Meðalþyngd 2 og 3 ára ýsu var undir meðaltali síðustu 2-3 ár en meðalþyngd 4 ára og eldri hefur verið um eða yfir meðaltali undanfarin 9-11 ár.
Aðrar tegundir
Stofnvísitala ufsa hefur lækkað frá árinu 2018 og er nú nálægt meðaltali. Vísitölur gullkarfa, keilu og litla karfa eru háar miðað við síðustu fjóra áratugi. Vísitala löngu og steinbíts eru með hæstu gildum frá 1985 en vísitala grásleppu var sú lægsta frá árinu 2013.
Útbreiðsla fisktegunda
Útbreiðsla ýmissa nytjafiska hefur breyst á tímabilinu, t.d. ýsu og skötusels þar sem þungamiðja útbreiðslunnar færðist vestur og norður fyrir land upp úr aldamótum. Ýsa fékkst nú í svipuðu magni allt í kringum landið. Stofnmælingar síðustu ára benda til að útbreiðsla skötusels sé aftur farin að líkjast því sem var fyrir aldamót þegar stofninn var lítill, þ.e. bundin við sunnanvert landið. Magn ýmissa suðlægra tegunda sem lítið eru nýttar, s.s. svartgómu, loðháfs, litlu brosmu og trjónuhala hefur aukist. Á sama tíma hafa ýmsar kaldsjávartegundir gefið eftir á landgrunninu fyrir norðan, s.s. áttstrendingur og ískóð.
Loðna, spærlingur og fiskar af sílaætt hafa fengist á fleiri stöðvum frá árinu 2009 samanborið við fyrri hluta rannsóknatímans. Brislingur fannst fyrst í marsralli árið 2019 en í ár fékkst metfjöldi brislinga (um 26 þúsund fiskar). Hann fékkst allt frá Ingólfshöfða til Arnarfjarðar en lang flestir fengust í Faxaflóa.
Hitastig sjávar
Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár en þó má greina lækkun hitastigs á grunnslóð fyrir norðan og austan frá hámarkinu árið 2017.
Greinina má nálgast hér.