Í Fjallabyggð er öflugt og fjölbreytt íþróttastarf. Hér starfa hvorki fleiri né færri en 14 íþrótta- og ungmennafélög og er rekstur þeirra allra í góðu jafnvægi.

Undanfarnar vikur hefur verið tími aðalfundanna, þar sem gerð er grein fyrir starfsemi síðasta árs, farið yfir reikninga og nýjar stjórnir kosnar til starfa. Flest félög hafa lokið sínum aðalfundum og önnur halda þá á næstu dögum. Ársþing ÚÍF verður svo 31. maí og fer það fram í Vallarhúsinu á Ólafsfirði.

En til þess að þetta gangi allt upp þá þarf fólk sem er tilbúið að gefa af tíma sínum fyrir íþróttahreyfinguna, fyrir unga fólkið okkar og aðra þá sem stunda íþróttir sér til heilsubótar og keppni.

Með stjórnir14 félaga og ýmsar nefndir og ráð auk ungmenna- og íþróttasambandsins sjálfs (UÍF) þá erum við að tala um nær 100 manns sem gefa af tíma sínum svo þetta geti orðið. Þá er ótalin öll sú vinna sem foreldrar iðkenda og iðkendur sjálfir leggja á sig í ýmis konar fjáröflunum og verkefnum fyrir íþróttahreyfinguna.

Það er ekki sjálfgefið að þetta sé svona og ber að þakka allt það frábæra framlag sem fólk er tilbúið að leggja fram samfélaginu til heilla.

Heimild og mynd/Frétta- og fræðslusíða UÍF