Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur móttekið tillögur frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga um nýjan reiknigrundvöll fyrir örorku til að nota við tryggingafræðilegar athuganir lífeyrissjóða. Hinar nýju forsendur voru samþykktar á félagsfundi félagsins 29. janúar sl. Fram kemur í erindi félagsins að reiknigrundvöllurinn byggist á upplýsingum frá öllum lífeyrissjóðum. Mat félagsins er að hinar nýju forsendur leiði til lækkunar á mati örorkuskuldbindinga lífeyrissjóða.

Í reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er kveðið á um að við mat á örorku- og endurhæfingarlíkum skuli nota örorku-og endurhæfingartöflur byggðar á innlendri reynslu um tíðni örorku og sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.

Ráðuneytið fellst á tillögur félagsins og tilkynnir hér með að við næstu tryggingafræðilegu athugun hjá lífeyrisjóðum skuli byggt á hinum nýja reiknigrundvelli við mat á örorku.

Mynd/Hari