Eydís Bára Jóhannsdóttir. Mynd/Húnaþing vestra

Á 367. fundi sínum þann 13. apríl 2023 staðfesti sveitarstjórn Húnaþing vestra ráðningu Eydísar Báru Jóhannsdóttur í starf skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra. 

Eydís Bára er með B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri auk viðbótardiplómu í menntavísindum með sérkennslu sem kjörsvið. Til viðbótar hefur hún lokið hluta diplómanáms með stjórnun og forystu í lærdómssamfélagi sem kjörsvið.

Eydís hefur hefur starfað við kennslu á grunnskólastigi frá árinu 2002 á Akureyri, Seyðisfirði og í Húnaþingi vestra.

Frá árinu 2019 hefur hún gegnt hlutverki aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Húnaþings vestra og skólaárið 2022-2023 verið starfandi skólastjóri.

Þá er staða aðstoðarskólastjóra laus til umsóknar og leitað er að leiðtoga með mikinn metnað fyrir menntun barna og unglinga sem hefur framsækna sýn á skólastarf og farsæld barna. Lögð er áhersla á öfluga skólaþróun, hvetjandi starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk og samstarf við aðila skólasamfélagsins.

Næsti yfirmaður er skólastjóri.

Helstu verkefni og ábyrgð

 • Staðgengill skólastjóra.
 • Faglegur forystumaður innan skólans og tekur þátt í mótun staðblæs og menningar.
 • Umsjón og skipulag stoðþjónustu.
 • Þátttaka í stefnumótun skólans.
 • Stjórnunarstörf í samvinnu við skólastjóra.
 • Þátttaka í innleiðingu laga um farsæld barna og seta í farsældarteymi.

Menntunar- og hæfniskröfur

 • Réttur til að nota starfsheitið kennari og reynsla af skólastarfi á grunnskólastigi skilyrði.
 • Leiðtogahæfni, auk þekkingar og reynslu af stjórnunarstörfum.
 • Reynsla af störfum innan stoðþjónustu æskileg.
 • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og samstarfi.
 • Hæfni til að tjá sig á íslensku í ræðu og riti skilyrði.
 • Skýr framtíðarsýn í skólamálum.
 • Frumkvæði, fagmennska, skipulagshæfni og nákvæmni.

Ráðið verður í stöðuna frá og með 1. júní 2023

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðeigandi stéttarfélags.

Í umsókn skal greina frá menntun og fyrri störfum, hæfni út frá hæfniskröfum starfsins og öðru því sem umsækjandi telur máli skipta og varpað getur ljósi á færni og hæfni hans til að sinna stöðu skólastjóra. Umsókninni skal fylgja kynningarbréf, ferilskrá og samantekt þar sem fram koma hugmyndir umsækjanda um skólastarf og þróun þess.

Þau sem uppfylla menntunar- og hæfniskröfur eru hvött til að sækja um starfið, óháð kyni.

Umsóknarfrestur er til og með 28. apríl 2023

Umsækjandi má hvorki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot), nr. 19/1940 frá því að hann var sakhæfur (15 ára) né hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Við ráðningu er heimilt að sækja upplýsingar úr sakaskrá.

Umsóknir skulu sendar á Eydísi Báru Jóhannsdóttur, skólastjóra, sem jafnframt veitir nánari upplýsingar um starfið. Netfang eydisbara@skoli.hunathing.is, sími 455-2900.