Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem mun kanna möguleikann á nýtingu vindorku á hafi í lögsögu Íslands.

Þetta er gert í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að marka skuli stefnu um vindorkuver á hafi. Áætlað er að verkefninu ljúki síðar á þessu ári og að hópurinn skili niðurstöðum fyrir 31. október 2022.

Óskað hefur verið eftir tilnefningum í starfshópinn frá ÍSOR, Orkustofnun, Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun. Formaður verður skipaður án tilnefningar. Starfshópurinn mun leita upplýsinga hjá framangreindum stofnunum auk Hafrannsóknarstofnunar, Samorku og Landsvirkjunar, ásamt upplýsingum um stöðu mála og lagaumhverfi í öðrum ríkjum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn sem komið er kannað ítarlega möguleika á að nýta vindorku á hafi. Til eru tvær grunngerðir vindorkuvera á hafi, annars vegar botnfastar sem þurfa að vera á minna en 60 m dýpi og hins vegar fljótandi.

„Sviðsmyndir grænbókarinnar sem kom út nú í mars sýna fram á mikla þörf fyrir orkuöflun á komandi áratugum og er mikilvægt að við leitum allra leiða og lausna í þeim efnum. Vindorkuframleiðsla á hafi er einn þeirra möguleika sem koma til greina. Skoða þarf vel og vandlega hvort og þá hvernig vindorka á hafi verði liður í þeirri orkuskiptaáætlun sem sett verður fram á næstu misserum og er hópnum ætlað að stíga fyrstu skrefin í þessari vegferð,“ segir Guðlaugur Þór.

Vindmyllur á Eyrarsundi /Sigurður Ólafsson/norden.org

Orkustofnun hefur unnið að kortlagningu á nálgun ýmissa ríkja á þróun vindorku á hafi sem og á landi, sem mun nýtast í vinnu starfshópsins. Einnig er hægt að líta til skýrslu sem lögð var fram á Alþingi af ráðherra orkumála árið 2018 og tók m.a. til vindorku á landi og sjávarfallaorku.

Starfshópnum er m.a. ætlað að taka saman upplýsingar um eftirfarandi atriði:

  • Fýsileika og hagkvæmni orkuvinnslu á hafi við Ísland.
  • Gróft mat á mögulegri afl- og orkuframleiðslugetu.
  • Heppilegar staðsetningar, s.s. hvar sé raunhæft að hafa botnfastar vindmyllur og hvar fljótandi vindmyllur, hvar séu hagstæð vindskilyrði og hvar óheppileg staðsetning vegna m.a. fiskimiða, siglingaleiða, fuglalífs og náttúru.
  • Hvað þurfi að hafa sérstaklega í huga varðandi úrbætur á regluverki til að styðja við þróun nýtingar vindorku á hafi.


Mynd: shutterstock