Spá Veðurklúbbsins Dalbæjar á Dalvík fyrir júlí er á flestan hátt svipuð og júní spáin, nema von er á hærra meðaltals hitastigi.  Það verða því allskonar veður eða veðurleysur í júlí með skyni og skúrum úr öllum mögulegum áttum með stillum eða blæstri til skiptis. 

Einhverjir félagar í veðurklúbbnum sáu fyrir sér snjó niður að sjó hérna fyrir norðan öðru hvoru megin við næstu mánaðarmót en það tæki fljótt af, enda voru aðrir í klúbbnum alveg til í að sú spá rættist ekki.  

Veðurklúbbur Dalbæjar mælir með því að fólk notist við skammtímaspár samkeppnisaðila sinna og elti þannig góða veðrið eins og mögulegt er núna í júlí, því það verður eltingarleikur sem erfitt verður að skipuleggja langt fram í tímann. 

Nokkrir meðlimir veðurklúbbsins kíktu í Föstudagsþáttinn á N4 á dögunum og má sjá viðtalið við þá hér fyrir neðan. 

Mynd/skjáskot úr myndbandi