Halldór Guðmundsson markmaður KF hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna nú í haust og mun hann því leika sinn síðasta heimaleik fyrir félagið á móti ÍR í dag, laugardaginn 11. september.

Halldór er þar með að ljúka 14 ára farsælum ferli með félaginu, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir KS/Leiftur á Ólafsfjarðarvelli í júní 2007 og hefur staðið á milli stanganna síðan og spilað 220 leiki.

Þess má til gamans geta að KF unnu 98 af þessum leikjum, töpuðu 80 og gerðu 42 jafntefli.

Liðið er nú í 6. sæti 2. deildar Íslandsmótsins. Auk þess að spila með meistaraflokki hefur Halldór þjálfað yngri flokka félagsins um árabil og starfaði sem yfirþjálfari þeirra um nokkurt skeið. Einnig þjálfaði hann meistaraflokk undir lok tímabilsins 2016.

Myndir: 
Halldór í leik á Ólafsfjarðarvelli – Guðný Ágústsdóttir
Eftir sigur á Kórdrengjum í Reykjavík 2019 – Björn Valdimarsson