Í dag eru liðin 100 ár frá því að minnisvarði um Hafliða Guðmundsson, hreppstóra f. 1852 – d. 1917 var afhjúpuð. Er talið að á annað þúsund manns hafi verið viðstödd þegar styttan var afhjúpuð.

Þessi merkilega stytta sem staðsett er fyrir framan Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði á sér stórmerkilega sögu og er vísað í tímaritið Fram frá því 22. ágúst 1922 og vefsíðu Steingríms Kristinssonar Heimildasíða tengd Siglufirði

Niðjatal Hafliða Guðmundssonar, hreppstjóra og Sigríðar Pálsdóttur.

Af heimildasíðu Steingríms Kristinssonar

Einn af þeim frumkvöðlum sem settu mikinn svip á Siglufjörð hér í upphafi þróunar byggðarlagsins var Hafliði Guðmundsson hreppstjóri.  —   Leita á Heimildasíðunni

Alltof lítið að mínu mati hefur verið minnst á þennan mæta mann síðustu áratugina, minning sem vert er að halda á lofti til fróðleiks komandi kynslóðum.

Minningar grein. Blaðið FRAM 7. júlí 1917.

Hafliði Guðmundsson var fæddur í Stuðlakoti í Reykjavík 2. Des. 1852. 

Faðir hans var Guðmundur Guðmundsson bræðungur við Bjarna rektor, en móðir hans var Ragnheiður dóttir Þorsteins Guðmundssonar stud. á Laksanesi í Kjós. Systir Ragnheiðar voru: Kristín fyrri kona séra Páls skálds Jónssonar, síðast prests á Viðvík og Kristín móðir Þórðar á Hálsi Guðmundssonar; bróðir Ragnh. hét Hafliði. —

Hafliði Guðmundsson var albróðir Björns heitins kaupm. Guðmundss. Þorsteins. fiskimatsmanns og Jórunnar heitinnar Guðmundsdóttur.

Þegar Hafliði var 5 ára gamall, missti hann móðir sína; ólst hann þá upp hjá föður sínum í Rvík fram yfir fermingu; þegar hann var 15 ára gamall fór hann að Hvítárvöllum til Andrésar Féldsteðs og var hjá honum um 5 ára skeið.

Síðan fór hann aftur til Reykjavíkur og var þar enn um 5 ár. Árið 1877 fór hann alfarinn úr Reykjavík til Siglufjarðar á vegu Snorra verslunarstjóra Pálssonar frænda síns. Var Hafliði þá nær því 25 ára að aldri.

Kom hann til Siglufjarðar 27. júní, og frá þeim degi átti hann heimili þar í Siglufirðinum. Fyrstu þrjú árin sem Hafliði var í Siglufirði, bjó hann hjá Snorra Pálssyni, en var þó á þeim árum tímunum saman, á Hraunum hjá Kristínu, systir Snorra, frænku sinni og Einari B. Guðmundssyni, bónda hennar. 

9. apríl 1880 kvongaðist Hafliði Sigríður Pálsdóttir úr Pálsbæ, Magnússonar frá Holti, Pálssonar frá Stuðlakoti í Reykjavík. 

Lifir hún mann sinn, ásamt 5 fullorðnum börnum. Eru þau öll gift: 

  • 1. Helgi Hafliðason kaupm. Siglufirði, giftur Sigríði Jónsdóttur Eiríkssonar, ættaðri úr Fljótum.
  • 2. Kristín Hafliðadóttir, gift Halldóri kaupm. Jónassyni í Siglufirði ættuðum úr Þingeyjarsýslu.
  • 3. Guðmundur Hafliðason, kaupm. í Siglufirði, giftur Theódóru Pálsdóttur Jónssonar, Árdals á Akureyri.
  • 4. Andrés Hafliðason, verslunarm. Siglufirði giftur Ingibjörg Jónsdóttur, ættaðri af Akureyri.
  • 5. Ólöf Hafliðadóttir, gift Sófusi verslunarstjóra Björnssyni Gunnlaugssonar Blöndal í Siglufirði. 

Eitt barn misstu þau Hafliði og Sigríður, Maríu Þorbjörgu, þriggja ára gamla, — mesta efnisbarn. 3 fósturbörn tóku þau hjónin.
Ólu þau tvö þeirra upp að nokkru leyti, en eitt alveg — Guðmundu Jacobsen. Hana tóku þau 2 ára, þegar hún missti móður sína, og var hún þar hjá þeim þar til hún giftist Edvin Jakobssen síldarkaupm frá Fosnavaag í Noregi, og er hún nú búsett þar. 

Sama vorið og Hafliði kvongaðist fluttist hann með konu sinni í svonefnt niðursuðuhús, og bjuggu þau þar í mörg ár, eða þangað til hann keypti hús ekkju Snorra Pálssonar heitins, Margrjet Ólafsdóttir, er hún fluttist til Ísafjarðar og bjó hann í því húsi til dauðadags 12 apríl síðastliðinn. —

Síðan Hafliði settist að í húsi þessu, hefir það verið kallað Hafliðahús. 

Þess er áður getið að Hafliði var 15 ára gamall, er hann fór að Hvítárvöllum. Stundaði hann þar laxveiði hjá Andrési Fjeldsted. Þar var þá enskur maður Ritschie að nafni, var, hann einnig við laxveiðarnar og sauð niður laxinn.

Lærði Hafliði af honum niðursuðu matvæla, og þegar hann var sestur að á Siglufirði var sett þar á fót matvælaniðursuða og stóð Hafliði fyrir henni öll þau ár, sem henni var haldið við. 

Annars vann Hafliði að hverskonar smíðum, sem fyrir féllu lengi frameftir æfinni: Niðursuðu, trésmíði, járnsmíði, múrsmíði, mátti segja svo, að öll verk lægi honum í augum uppi og ekki minnist eg þess, að eg hafi þekt fjölhæfari mann til verka; og það var segin saga, að ef einhver þurfti að láta gjöra eitthvað, sem sérstakrar fegurðar þurfti við, þá var ætíð viðkvæðið: »Farðu með það til hans Hafliða, hann verður ekki lengi að lagfæra það« — og , Hafliði bætti meinin bæði fljóttogvel.

Eitt vorið, sem Hafliði dvaldi á Hvítárvöllum var kalt með afbrigðum. Var oft vosbúð mikil við laxveiðarnar og ofkældist Hafliði þá eitt sinn svo mjög, að þess beið hann aldrei bætur síðan. Fékk hann þyngsli fyrir brjóstið og kenndi þeirra ætíð upp frá því. Ágerðist þessi brjóstmæði eftir því meir sem hann eltist, og mun hún hafa valdið mestu um dauða hans. En mæði þessi olli því meðal annars, að seinustu ár æfinnar var hann að mestu hættur að vinna líkamlega vinnu. 

Þann 5 ára tíma, sem hann var í Reykjavík — frá 1872—77 — starfaði hann að ýmsu; var hann t. d. við kalknám í Esjunni með Birni bróður sínum, byggingu hegningarhússins o. fl. Á þeim árum var hann 2 vetur í sunnudagaskóla, sem í þann mund var haldinn í »Glasgow.« Var lærdómur sá, er hann naut í skóla þessum, alt það andlega veganesti, sem hann fékk frá öðrum til langferðar sinnar á lífsveginum — auk fermingarfræðslunnar. 

En ofan á þessa undirstöðu bygði hann síðan sjálfur svo vel, að hann mátti vel mentur heita, þótt að mestu væri hann sjálfmentaður. Og alla æfi las hann mikið. Sérstaklega hafði hann yndi af sögu og ættfræði. En annars fylgdist hann vel með í öllum framsóknarmálum þjóðarinnar, jafnt í pólitík sem öðru, og sýnir það meðal annars hygni hans og greind, að aldrei felti hann verð á neinum fyrir andstæðar skoðanir í landsmálum og varð eg þess aldrei var, að nokkurs kulda kendi frá honum í garð stjórnmála andstæðinga sinna fyrir þá sök eina, að þeir væru andstæðingar. — 

Hann naut líka hylli og trausts sveitunga sinna í hvívetna og yfirleitt allra þeirra, sem kyntust honum og nokkuð höfðu saman við hann að sælda. Þessi hylli og þetta traust kom meðal annars í ljós með því, að honum var trúað fyrir vandasömustu og erviðustu störfum sveitarinnar: 31 ár var hann í gæsiustjórn sparisjóðsins í Siglufirði og 16 ár formaður sjóðsins. Sýslunefndarmaður var hann í mörg ár. Oddviti Hvanneyrarhrepps var hann í 20 ár og hreppstjóri og sáttarnefndarmaður í 23 ár. 

Hreppstjóra embættinu fylgir ætíð talsverð ábyrgð; en það hygg eg að óhætt sé að segja, að hreppstjóraembættinu í Siglufirði hefir fylgt — sérstaklega á seinni árum — meiri ábyrgð en nokkru öðru hreppstjóraembætti landsins. 

Var það ekkert smáræðis verk að sinna öllum skipum, sem inn á höfnina komu og innheimta hjá þeim siglingagjöld, innheimta alla tolla, bókfæra þetta alt og standa skil á mörgum þúsundum árlega. — 

Það er ekkert meðalmanns verk, að inna þetta af hendi svo í lagi sé. 

En aldrei hefi eg heyrt, að nokkurntíma hafi nokkur snurða komið á þann þráð — hvorki fyr né síðar. — 

Það mun nokkuð algengt, að þeir, sem miklar og víðtækar innheimtur hafa á hendi, njóta ekki eins almennrar hylli eins og þeir, sem eigi hafa þau störf með höndum; en þetta átti ekki við um Hafliða Guðmundsson. Er mér óhætt að fullyrða það, að allir borguðu Hafliða með glöðu geði, jafnt innlendir sem útlendir menn; öllum þótti svo vænt um Hafliða. 

Var það oft þegar útlendingar þyrptust saman og við uppþoti lá og handalögmáli, að ekki þurfti annað en að Hafliði kæmi á vettvang glaður og brosandi og talaði við þá fáein orð í góðu, þá sundraðist hópurinn og allir héldu í friði á braut. 

En það var eigi að eins hreppstjórastarfið, sem Hafliða fór svo vel úr hendi — nei, hann rækti öll störf sín með sömu samviskusemi og það svo að allir undu vel við. 

»Hafliðahúsið« þekkja allir Siglfirðingar og ekki aðeins þeir, heldur allir síldveiðamenn — allir, liggur mér við að segja, sem einhverntíma hafa komið í Siglufjörð á seinustu áratugum, en þeir eru margir. Húsið er hvorki stórt né fagurt á að líta. En þegar inn var komið gleymdist þetta hvorttveggja, því að gestrisni hefir búið þar innan veggja svo að með afbrigðum er. Má svo segja, að þar hafi aldrei verið gestalaust, hvorki vetur né sumar. Og allir hafa notið sömu risnunnar og sama atlætisins; og það hafa ekki aðeins verið veitingar húsfreyjunnar og viðmót hennar, sem hefir gjört gestunum svo ánægjulegt að vera í því húsi, heldur líka hin framúrskarandi góða og glaða lund húsbóndans horfna. 

Það var eins og allir gestir væru synir hans og dætur — svo vildi hann láta þeim líða vel. Og spaugsyrðin og gamansögurnar, sem hann hafði ætíð á reiðum höndum, voru ánægjulegri nokkru kryddi með kaffinu, eða hverju öðru, sem fram var borið. 

Og margur er sá gesturinn, sem geymir ánægjulegar endurminningar frá samfundum við Hafliða í hans eigin húsi. 

Um þriggja ára tíma hafði Hafliði og kona hans á hendi greiðasölu, og er eg sannfærður um það, að á þeim árum hefir ekki verið selt oftar en gefið — þótt sala ætti að heita. Húsbóndi var hann ágætur, konu sinni besti eiginmaður og börnum sínum, fósturbörnum og tengdabörnum ástríkur faðir. 

Eg enda þessar línur með þeirri ósk, að Íslandi mætti auðnast að eignast sem flesta jafnoka Hafliða Guðmundssonar að drengskap og dug, góðsemi og glaðlyndi, trygð og tápi. 

O. Dav.
———————————————————-

Hafliði Guðmundsson hreppstjóri.   

Hluti af frásögn eftir Kristinn Halldórsson, í Tímanum. Sunnudagsblað 19. September 1965 

………Menn gerast háværir, einn fer að berja hnefanum í borðið, og glösin dansa. Loftið í ölstofunni fyllist óhuganlegri spennu. „Fan i hel vete,” heyrist sagt — einhverjir eru orðnir ósáttir. „Takk sjebne!” er svarað, og í sömu andrá spretta tveir menn á fætur. Borð og stólar velta, glös brotna, og kjaftshöggin ganga á víxl þeirra í milli. Aðrir ölstofugestir rísa á fætur og reyna að miðla mál um, og það skiptir engum togum: Í næstu andrá logar ölstofan í slags málum. 

Við og fleiri flýjum ölstof una og þræðum okkur leið gegnum manngrúann á Aðalgötunni. Víða er háreysti, óp og stimpingar og smá hópar eiga í áflogum hér og þar á götunni eða inni í húsasundum beggja megin hennar. Á grasbalanum, er þá var á milli íbúðarhúsa þeirra Guðmundar Hallgrímssonar héraðslæknis og Sörens Goos verksmiðjueiganda, er mikill mannfjöldi saman kominn, eða réttara sagt: þarna eru ótal hópar Norðmanna, sem allir eru í æðisgengnum slagsmálum. 

Við göngum suður grasbalann. Við sjáum, að hinn aldraði hreppstjóri, Hafliði Guðmundsson, er kominn inn í miðja þvöguna til þess að stilla til friðar. 

Ef hreppstjórinn getur ekki sefað áflogaseggina, þá er það á fárra færi. Þetta segja allir. 

Við dveljumst þarna góða stund, og okkur ofbjóða ólætin. Kyrrð kemst á, þar sem hreppstjórinn hefur náð tali af mönnum, og Hafliði lyftir borðalögðu kaskeitinu, tekur upp hvítan vasaklút, þurrkar svitann af enninu og hann segir: „Það er stórart að, hvað Norðmennirnir geta slegizt.” Hann á margt ógert í kvöld, þarf víða að tala við menn og stilla til friðar. Hann gengur ótrauður að næstu þvögu til þess að sefa hína órólegu landlegusjómenn. En Hafliða er ætíð jafnvel við Norðmennina á hverju sem gengur, og norskir reiðarar sýndu hug sinn til hans, þegar þeir reistu honum fagran minnisvarða fyrir framan hús hans að honum látnum. Og nú yfirgefum við grasbalann og förum út á Aðalgötuna………. 
——————————————-

Blaðið Fram þann 26. ágúst 1922

Minnisvarði Hafliða heit. Guðmundssonar afhjúpaður 20. ág. 1922. 

Eins og getið var i síðasta blaði að stæði til, var minnisvarði Hafliða afhjúpaður sunnudaginn 20. þ. m. og byrjaði athöfnin kl. 6 síðd. 

Fjórar stengur höfðu verið reistar umhverfis varðann með fánum hinna fjögurra Norrænu ríkja og öll skip sem lágu hér á höfninni höfðu dregið upp fána og mörg skreytt sig með flöggum þegar um morguninn. Kl. 5.1/2 byrjaði fólk að safnast að, og kl. 6, þegar athöfnin byrjaði var manngrúinn, útlendra og innlendra orðinn svo mikill, að langt tók út á nærliggjandi götur auk þess sem svæðið í kring og gatan var fullskipað. Gátu kunnugir þess til, að þarna mundi hafa verið saman komið nokkuð á annað þúsund manns. Hr. Tönnes Wathne, bróðir skörungsins Otto Wathne, sem hafði verið falið að afhjúpa steininn og afhenda hann fyrir hönd gefendanna talaði þá á þessa leið: 

Konur  og  menn ! Heiðraða samkoma ! 

Hinn 12. apríl 1917 barst til Noregs fregnin um það, að hinn tryggi vinur vor Norðmanna Hafliði hreppstjóri Guðmundsson væri látinn. Þessi fregn vakti sorg hjá öllum hinum mörgu norsku vinum hans, en það er nú svo, að enginn dauðanum ver. 

Allir þeir Norðmenn sem hin síðustu 20 árin hafa rekið fiskiveiðar hér, hafa haft meira eða minna náin kynni af hinum látna, sem hreppstjóra og sem manni, — notið gestrisnu hans og velvildar. Það er til málsháttur sem hljóðar svo: Það er betri sá kvisturinn sem bognar, en hinn sem hrekkur. Þessi málsháttur átti vel við, hvað Hafliða heitinn snerti — honum tókst ætíð að jafna alt — alla misklíð og hvað sem var, — með góðu, — án þess að beita brandi. Þau mörgu ár sem hann var hér hreppstjóri og hafði, sem aðal yfirvald hér, allra manna mest saman við landa mína að sælda, urðu til þess að afla honum góðra vina í Noregi, ekki svo hundruðum heldur sem þúsundum skifti og það eru þessir vinir, sem í dag í þakklátri minningu hafa reist þennan bautastein sem eg af löndum mínum hefi fengið það virðulega hlutverk að afhjúpa. 

Þessi fjölmenni vinahópur fækkar eftir því sem stundir líða, — dauðinn mun höggva skörð í fylkinguna smám saman og marga af vinunum hefir hann þegar hrifið burtu, — en þessi bautasteinn mun í aldir fram standa, sem tákn og vottur þess, að hér hafi frændþjóðirnar tekið höndum saman í bróðerni, bæði í orði og verki, og að hér hafi bönd vináttunnar tengst fastar og traustar en venjulega. Eg vil að endingu leyfa mér, fyrir hönd landa minna, að flytja konu Hafliða heitins þökk og kveðju. — Henni, sem öll hin mörgu ár, hafði staðið við hlið hans sem hans styrkasta stoð og sem á sinn sterka þátt í þeim traustu vináttuböndum sem hér hafa verið tengd. 

Eg lýsi hér með yfir að þessi bautasteinn er afhjúpaður, og eg afhendi hann fjölskyldu hins framliðna til eignar og umönnunar.

Því næst var hinum norska fána sem steinninn var hjúpaður með, svift af og blasti steinninn við mannfjöldanum með andlitsmynd Hafliða steyptri úr eiri, en mannfjöldinn beraði höfuð sín í virðingarskini. 

Þá talaði Sophus kaupm. Blöndal og þakkaði fyrir hönd fjölskyldunnar, hina höfðinglegu gjöf, svo og allan þann velvildarhug er hinir norsku vinir Hafliða hefðu sýnt hinum látna lífs og liðnum. 

Bæjarfógeti G. Hannesson sté því næst fram, og lagði blómsveig við fót styttunnar í nafni ríkisins og minntist Hafliða sem embættismanns, og annan í nafni bæjarstjórnar fyrir bæjarins hönd og minntist hans sem borgara bæjarins, og því næst ávarpaði hann gefendurna og aðra viðstadda Norðmenn með snjallri ræðu og hvatti til samhugs og samstarfs meðal bræðraþjóðanna og bað menn hrópa nífalt húrra fyrir Noregi. Kapt. Bjerkevik þakkaði ræðu bæjarfógeta og Kapt. P. Jangaard minntist Íslands og bað menn hrópa nífalt húrra fyrir því. 

Hæstaréttardómari Páll Einarsson ávarpaði frú Sigríði ekkju Hafliða nokkrum velvöldum orðum, og lagði blómsveig við fót steinsins í nafni sín sjálfs og vandafólks síns. 

Vandamenn og vinir lögðu einnig blómsveiga við steininn. Hornaflokkur lék nokkur lög á milli, 

Að afhjúpuninni afstaðinni var boð mikið inni í húsi Hafliða heitins, stóðu fyrir því ekkjan, börn hans og tengdabörn, og söfnuðust þangað viðstaddir vinir hans og gamlir gestir bæði innlendir og útlendir. Var þar glaðværð mikil og teiti svo sem Hafliði mundi sjálfur best kosið hafa og veitt af hinni mestu rausn. 

Þar voru ræðuhöld fjörug, og talaði þar meðal annara Páll Einarsson hæstaréttardómari til hinna norsku gesta og þakkaði þeim fyrir heiður þann er þeir höfðu sýnt íslandi og hinni íslensku þjóð með gjöf þessari. Kvað hann það sannast, að enginn íslenskur maður fyr né síðar hefði verið heiðraður á þennan veg og væri slíkt báðum þjóðunum til sóma og lýsti þessi minnisvarði sem þeir höfðu reist, betur en nokkuð annað, þeim bróðurhug sem innst inni bindi báðar þessar þjóðir saman og jafnvel þótt smávægilegar snurður gætu komið á þau bönd stökusinnum, þá væru þær ekki svo að úr þeim mætti eigi greiða með lipurð og lægni og einmitt það, ættu báðar þjóðirnar að kosta kapps um, — að treysta vináttuböndin með vinsemd og velvild og þar hefði Hafliði Guðmundsson gefið hið besta fordæmi.
————————————

Fjöldi símskeyta hafði komið víða frá, bæði utan- og innanlands. Frá Álasundi frá Arkitekt Jens Flor sem gjört hafði uppdrátt að minnisvarðanum, frá Anton Brobakke, frá Mical Knudsen, frá Fladmark og frá blaðinu Aales. Avis Fra Haugasundi frá Olav Risöen, frá Bakkevig, og frá Staalesen. Svo og hinn mesti sægur skeyta frá vinum og vandamönnum innan!ands. Um 40 norskir skipstjórar voru, í boðinu og mesti fjöldi íslendinga, bæði bæjarmanna og aðkomumanna þar á meðal biskupinn, herra Jón Helgason sem hér var staddur.

Bautasteinninn er, svo sem áður hefir verið lýst hér í blaðinu, níu feta hár ósléttaður óbeliski, ferstrendur. Stendur hann á tvöföldum palli úr slétthöggnum steini og lágir steinstólpar í kring og vébönd úr sterkum hlekkjafestum á milli, en alt hvílir á traustum ferhyrndum palli úr íslensku grjóti og steinsteypu, steyptum langt i jörð niður. Er allur umbúnaður hinn traustasti. Steinninn, pallurinn og stólparnir sem véböndunum halda, er alt úr rauðleitum norskum granítsteini. 

Umhverfis varðann er fyltur upp og sléttaður dálítill reitur grasi vaxinn og með malarstígum á milli; — mun þar eiga síðar meir, að gróðursetja skrautblóm og þessh. Er reitur þessi girtur með traustri trégirðingu sem stendur á háum steinsteypugrunni. Sjálfur steinninn er nokkuru breiðari en hann er þykkur, og snýr breiðari hliðin fram að götunni og er andlitsmynd Hafliða steypt úr eiri; er hun gjörð af listamanninum norska, Gustaf Lærum, og greypt í framhlið steinsins, og er sem hinn látni höfðingi broshýr og glaður, bjóði gesti sína og góðvini velkomna við dyr sínar. 

Neðan við myndina er rist þessi áletrun: 

Norðmenn hafa kostað bautasteininn og umbúnað þennan allan og er ekkert tilsparað að gjöra verkið sem traustast og veglegast. Það var byrjað að safna til minnisvarðans um allan Noreg strax 1917 en vegna stríðársins og afleiðinga þess, var framkvæmd verksins frestað þar til í ár. 

Steinninn var sendur nú í vor hlugað upp og O. Tynes falið að sjá um uppsetningu hans, kvaddi hann verkfræðing Gustav Blomkvist sér til aðstoðar við það og hafa þeir báðir í sameiningu séð um uppsetningu minnisvarðans og farist það hið besta úr hendi. 

Nefnd manna var falið fyrir hönd gefendanna að afhenda steininn og voru í nefndinni þeir, G. Blomkvist, O. Tynes, H. Henriksen, J. Iversen, Th. Björnson, P. Jangaard, O. Bjerkevik, E Jacobsen og Olav Evanger”

Forsíðumynd/aðsend