Kennarar, stuðningsfulltrúi og þroskaþjálfi skólans voru á tveggja daga námskeiði hjá Søren Hansen prófessor við Háskólann í Álaborg. Hann er sérfræðingur í skapandi hugsun og hvernig hægt er að þjálfa nemendur í skapandi vinnubrögðum. Námskeiðið stóð í tvo daga og var blanda af stuttum fyrirlestrum, þjálfunaræfingum og þróun hugmynda sem geta gagnast í kennslu.

Í MTR hefur frá upphafi verið lögð áhersla á frumkvæði, sköpun og áræði, eins og segir í einkunnarorðum skólans. Skapandi skil verkefna eru við lýði í mörgum námsgreinum og starfsfólk er almennt frekar móttækilegt fyrir nýungum í kennsluaðferðum. Námskeiðið er því vítamínsprauta fyrir skólann og mun án efa setja mark sitt á skólastarfið sem er um það bil að hefjast.

Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ en Menntaskólinn á Tröllaskaga fékk á síðasta ári vottun sem Erasmus+ skóli. Það gerir umsóknarferli um styrki auðveldari en áður. Vottunina fær skólinn fyrir vel heppnuð alþjóðleg verkefni undanfarin ár. Helmingur verkefnanna hefur snúist um samstarf hópa nemenda frá þremur eða fjórum skólum en helmingur um þróunarsamstarf kennara og annarra starfsmanna. Grunnur þess að fá vottunina er að þessi verkefni voru vel skipulögð og árangursrík.

Myndir frá námskeiðinu hér.

Forsíðumynd/MTR