Fjallabyggð ásamt samstarfsaðilum vinna að mikilvægum nýjungum og áherslum í velferðarmálum – og ýta nú úr vör metnaðarfullu verkefni sem ber heitið Hátindur 60+. Verkefnið er nýsköpunar- og þróunarverkefni í þjónustu við íbúa sveitarfélagsins 60 ára og eldri. Markmiðið er að velferðarþjónusta í Fjallabyggð verði nútímaleg, sjálfbær og tryggi einstaklingum lífsgæði. Að þjónustan verði sniðin að þörfum notenda m.a. með því að samþætta félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem stuðlar síðan að því að eldra fólk geti búið lengur heima við góðar aðstæður, bæði hvað varðar öryggi og félagslega þætti, sem og að virkja þann hóp sem enn er á vinnumarkaði.

Heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa átt ríkan þátt í að koma verkefninu á fót. Félagsmálaráðherra styrkti verkefnið með myndarlegum hætti og heilbrigðisráðuneytið hefur komið að verkefninu með beinum hætti.

Verkefninu verður ýtt úr vör með súpufundi í menningarhúsinu Tjarnaborg í Ólafsfirði miðvikudaginn 29. mars kl. 12:00 og er þér boðið að vera viðstaddur/viðstödd.

Dagskrá fundarins:
• Ávarp frá Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
• Ávarp frá Heilbrigðisráðherra
• Ávarp frá Félags- og vinnumarkaðsráðherra

Fundarstjóri er Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri Fjallabyggðar
Verkefnið er samstarfsverkefni Fjallabyggðar, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN), Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Heilbrigðis- og velferðarklasa Norðurlands (Veltek).

Nánari upplýsingar um verkefnið veita;
Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir verkefnastjóri s: 867-9799, hannasigga@hatindur.is
Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri, sigga@fjallabyggd.is

Fyrir hönd Hátinds 60+
Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir
Verkefnastjóri Hátinds 60+